Innlent

Björn sá uppsagnirnar fyrir

Margsinnis rætt við ráðherra Björn Zoëga ræddi margoft við velferðarráðherra um kjaramál starfsfólks löngu áður en uppsagnirnar áttu sér stað.
Fréttablaðið/Anton
Margsinnis rætt við ráðherra Björn Zoëga ræddi margoft við velferðarráðherra um kjaramál starfsfólks löngu áður en uppsagnirnar áttu sér stað. Fréttablaðið/Anton
„Við sáum þetta fyrir í sumar og svo aftur fyrir svona sex vikum. Þá sáum við að það var komin hreyfing af stað í þessa veru,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, um fjöldauppsagnir um 250 hjúkrunarfræðinga á spítalanum.

„Þetta kemur okkur ekki á óvart. Þetta er heldur ekkert sem ætti að koma pólitíkinni á óvart.“

Björn hefur margsinnis rætt við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra um kjör starfsmanna spítalans, löngu áður en til uppsagnanna kom. Hann vonar að samningar náist á næstunni.

„Það er verið að skoða þetta. Nú er staðan sú að 250 einstaklingar hafa sagt upp og við verðum að skoða hvað liggur á bak við það. Svo sjáum við hvað við getum gert á næstu vikum.“

Björn segist hafa fundið fyrir því í langan tíma að starfsfólk spítalans hafi ekki nægilega há laun. Það eigi jafnt við um hjúkrunarfræðinga sem aðrar starfstéttir.

„Sumir hafa ekki getað lifað á launum, en það á við um alla Íslendinga. Það er ekkert öðruvísi hér en annars staðar,“ segir hann. „Við höfum haft mikinn skilning á því og mikla þörf að reyna að hækka laun starfsmanna svo við missum þá ekki og svo það sé hægt að halda uppi góðri starfsemi.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×