Fótbolti

Eyjólfur: Áttum ekki skilið að tapa leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska U-21 liðið hefur nú tapað fjórum keppnisleikjum í röð.
fréttablaðið/stefán
Íslenska U-21 liðið hefur nú tapað fjórum keppnisleikjum í röð. fréttablaðið/stefán
Íslenska U-21 lið karla tapaði í gær fyrir Aserbaídsjan í undankeppni EM 2013, 1-0. Sigurmarkið kom undir lok fyrri hálfleiks, beint úr aukaspyrnu. Þjálfarinn Eyjólfur Sverrisson var að vonum svekktur eftir leikinn en var þó ánægður með frammistöðu sinna manna.

„Við vorum betri aðilinn og áttum ekki skilið að tapa leiknum. Við fengum færin en náðum einfaldlega ekki að setja boltann yfir línuna," sagði Eyjólfur en besta færi Íslands fékk Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður Juventus, er hann skallaði boltann í slá um fimmtán mínútum fyrir leikslok.

„Strákarnir lögðu sig fram og áttu góða kafla, sérstaklega í seinni hálfleik. Þá settum við mikla pressu á Aserana. Ég veit ekki hversu oft boltinn rann í gegnum teiginn þeirra án þess að við náðum að setja tána í boltann," sagði Eyjólfur.

Ísland saknaði nokkurra leikmanna í leiknum sem gátu ekki gefið kost á sér af ýmsum ástæðum. „Það vantar mikið af mönnum en það er ekkert út á þá leikmenn að setja sem spiluðu leikinn, þeir stóðu sig vel."

Þetta var fyrsti sigur Asera í riðlinum en liðið er nú með fjögur stig – Ísland þrjú. „Ég ræddi við þjálfara Aserbaídsjan eftir leikinn og hann sagði mér að Ísland hefði átt betri leik gegn þeim hér úti en bæði Noregur og Belgía [sem eru í sama riðli]. Þeir áttu meira skilið úr þeim leikjum heldur en úr þessum. En í þetta skiptið datt þetta bara þeirra megin – þetta var bara einn af þessum leikjum."

Næsti leikur Íslands í riðlinum verður einmitt gegn Aserum á Laugardalsvellinum í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×