Innlent

Munu mótmæla lögbanni - ekkert saknæmt í gangi hjá Kastljósi

Boði Logason skrifar
Sigmar Guðmundsson er ritstjóri Kastljóss.
Sigmar Guðmundsson er ritstjóri Kastljóss. mynd/ellý
„Við munum að sjálfsögðu mótmæla því harðlega ef að menn ætla að reyna að setja lögbann á það að fjölmiðlar geti rækt sína skyldu, að upplýsa almenning um eitthvað sem vel má færa rök fyrir því að sé alvarlegt klúður í stjórnsýslunni hérna," segir Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóss.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi sagði á fundi með fjárlaganefnd Alþingis eftir hádegi í dag hafa rætt við forstjóra fjársýslunnar um það hvort fara eigi fram á lögbann á umfjöllun sem Kastljósið hefur boðað í kvöld. Í gær fjallaði þátturinn um gríðarlegan umframkostnað við nýtt bókhaldskerfi stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun hefur tilkynnt lögreglu um leka á skýrslu frá embættinu til Kastljóssins.

Sigmar segist hinsvegar ekkert hafa heyrt um lögbannið, sem Sveinn talaði um á fundinum í dag. „Við erum bara að vinna okkar vinnu og á meðan við höfum ekkert heyrt meira af þessari lögbannskröfu með formlegum leiðum þá er ástandið bara óbreytt," segir Sigmar. „Og í raun og veru trúi ég því ekki að það geti komið til þess að hægt sé að setja lögbann á okkur með þessum hætti - ég bara neita að trúa því."

„Þeir (ríkisendurskoðun, innsk.blm.) hafa verið að vísa í öryggis- og almannahagsmuni. Ég get ekki séð að það fari saman að standa vörð um almannahagsmuni og á sama tíma að banna fjölmiðlum að upplýsa almenning um það sem aflaga fer í stjórnsýslunni," segir hann um málið.

Spurður um tilkynningu stofnunarinnar um lekann á skýrslunni til Kastljóssins, segir Sigmar: „Það er með þetta mál eins og öll önnur mál sem fjölmiðlar fást við. Gögn koma til okkar með ýmsum leiðum, það er ekkert saknæmt hér í gangi hjá Kastljósinu. Við segjum ekkert frá því hvaðan við fáum gögn, það liggur í hlutarins eðli."


Tengdar fréttir

Tilkynnir leka til lögreglu - íhugar lögbannskröfu á Kastljósið

Ríkisendurskoðun hefur tilkynnt lögreglu leka á skýrslu frá embættinu til Kastljóssins. Þetta kom fram á fundi fjárlaganefndar Alþingis með Sveini Arasyni ríkisendurskoðanda. Í Kastljósi í gær var fjallað um gríðarlegan umframkostnað við nýtt bókhaldskerfi. Sveinn sagðist jafnframt taka ábyrgð á því hversu lengi hefði dregist að skýrsla Ríkisendurskoðunar um málið hefði dregist. Hann sagðist ekki vita hvenær skýrslan yrði tilbúin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×