Enski boltinn

Stuart Pearce tilbúinn að stýra Englandi á EM í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pearce þótti harður í horn að taka sem leikmaður.
Pearce þótti harður í horn að taka sem leikmaður.
Stuart Pearce, þjálfari U21 landsliðs Englendinga, er tilbúinn að stýra A-landsliði þjóðarinnar í sumar verði leitast eftir kröftum hans.

Pearce, sem stýrir landsliðinu tímabundið á meðan leitað er að eftirmanni Fabio Capello, segist hafa reynslu til að fara með landsliðið á stórmót.

„Ég hef leikið í undanúrslitum á tveimur stórmótum, ég hef stýrt U21 landsliðinu í úrslitum á stórmóti, ég hef farið með U21 liðið í undanúrslit á stórmóti og ég var í þjálfarateymi Fabio á HM í Suður-Afríku," sagði Pearce í samtali við breska fjölmiðla.

Pearce var í liði Englands sem komst í undanúrslit á HM 1990 og EM 1996. Þá stýrði hann U21 liðinu í lokakeppni Evrópumóts í Danmörku síðasta sumar. Pearce segist hafa næga reynslu til að stýra liðinu í sumar en ekki lengur.

„Ég tel mig þó ekki hafa næga reynslu á þessum tímapunkti til þess að stýra liðinu til lengri tíma. Mínum tíma með liðið lyki í sumar," sagði Pearce.

England mætir Hollandi í vináttulandsleik á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×