Innlent

Gætu skapað 5.000 ný störf

Skýrsla Íslandsbanka um orkumarkaðinn var kynnt á Nauthóli í gærmorgun. Þar kom meðal annars fram að íslensk sérþekking í geiranum væri í útrás.
Skýrsla Íslandsbanka um orkumarkaðinn var kynnt á Nauthóli í gærmorgun. Þar kom meðal annars fram að íslensk sérþekking í geiranum væri í útrás.
Ef ráðist yrði í allar fyrirliggjandi virkjanaframkvæmdir á Íslandi myndi orkuframleiðsla Íslendinga aukast um rúm 42 prósent. Yrðu þær allar að veruleika gætu skapast um fjögur til fimm þúsund bein störf. Fjárfestingaþörf vegna þessara verkefna er yfir 300 milljarðar króna fyrir utan nauðsynlegar breytingar á orkuflutningskerfinu. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um orkumarkaðinn sem kynnt var í gærmorgun.

Í skýrslunni kemur fram að Ísland sé í þrettánda sæti á meðal Evrópuþjóða þegar kemur að raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum auðlindum. Ísland er hins vegar með langmestu endurnýjanlegu raforkuframleiðsluna í heiminum miðað við höfðatölu.

Alls eru fjórtán virkjanaframkvæmdir í bið eða til skoðunar hjá Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og HS Orku. Bygging einnar þeirra, Búðarhálsvirkjunar, hófst haustið 2010 og á að ljúka í lok næsta árs. Orkan úr henni mun fara til álversins í Straumsvík. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu hinna þrettán hefjist á árunum 2012 til 2015. Sex þeirra eru enn ekki komnar með tilgreind orkukaup en sjö eiga að sjá álverinu í Helguvík fyrir orku, náist samkomulag við eiganda þess, Norðurál, um verð. Samanlagt uppsett afl þessara fjórtán virkjanakosta er 995 megavött. Því er um að ræða aukningu upp á rúm 42 prósent frá því sem nú er framleitt af orku hérlendis.

Í skýrslunni segir að „flestar þessar virkjanir eru á útboðshönnunarstigi, þ.e. allri verkhönnun er lokið og hægt er að ráðast í verkefnin með stuttum fyrirvara svo fremi sem kaupandi að orkunni er til staðar […] Ef allar ofangreindar fyrirhugaðar virkjanir fara í framkvæmd gætu skapast um 4.000-5.000 bein störf hér á landi“.

Íslandsbanki áætlar gróflega að fjárfestingaþörfin til að hrinda þessum verkefnum í gagnið sé yfir 300 milljarðar króna. Til viðbótar þyrfti Landsnet að fjárfesta fyrir um 75 milljarða króna fram til ársins 2020 vegna nýrra virkjana og þróunar á flutningakerfi fyrir raforku. „Fari framkvæmdir af stað munu þær hafa gríðarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf.“ Íslandsbanki telur vel mögulegt að fjármagna verkefnin, til dæmis með verkefnafjármögnun sem felur í sér stofnun félags í kringum ákveðið verkefni.

Í skýrslunni segir að helstu hindranir sem orkufyrirtækin standi frammi fyrir í dag séu óvissa á alþjóðlegum markaði sem dregur úr eftirspurn eftir íslenskri orku, mikil skuldsetning orkufyrirtækjanna og breyttar áherslur í rekstri sem valda því að framkvæmdir eru settar í bið og óvissa skapast um fjármögnun þeirra. Þá sé það vandamál að rammaáætlun liggi enn ekki fyrir og ljóst sé að pólitísk áhætta vegna breytinga á reglum eftir að „leikur er hafinn“ hafi fælandi áhrif á erlenda fjárfesta.thordur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×