Enski boltinn

Gerrard: Manchester United vildi fá mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, hefur haldið tryggð við sitt félag þrátt fyrir áhuga margra stórliða. Hann segist hafa átt möguleika á því að fara til félaga eins og Chelsea, Manchester United og Real Madrid.

Gerrard er orðinn 32 ára gamall og enn í Liverpool en hann rifjaði það upp í viðtali við Daily Mail að mörg stórlið hefðu sóst eftir þjónustu hans í gegnum tíðina.

„Það hefur ýmislegt verið í gangi undanfarin tíu ár en fólk heyrði bara af því þegar Mourinho var að reyna að fá mig til Chelsea 2004 og 2005. Slíkt hefur þó gerst oftar," sagði Steven Gerrard.

„Það var mjög gaman að vita af því að tveir bestu stjórar í heimi vildu fá mig í sitt lið," sagði Gerrard og átti þá við Jose Mourinho og Sir Alex Ferguson

„Ég tók því sem miklu hrósi þegar ég heyrði af því að Sir Alex Ferguson vildi fá mig í sitt lið. Gary Neville sagði mér að Ferguson vildi fá mig en það var ómögulegt því ég hefði aldrei getað spilað fyrir Manchester United. Þetta eru frábær klúbbur en þeir eru erkifjendurnir og af sömu ástæðu hefði Gary aldrei spilað með okkur," sagði Gerrard.

„Það var öðruvísi með Mourinho því Liverpool var ekki líklegt til afreka á þeim tíma og ég tók mér tíma til að hugsa um möguleikann á því að fara til Chelsea. Ég endaði á því að segja nei og sagði líka nei árið eftir," sagði Gerrard.

„Mourinho kom aftur þegar hann var kominn til Real Madrid fyrir tveimur árum. Það var samt aldrei að fara að gerast því ég var ánægður hjá Liverpool og var ákveðinn að enda ferilinn þar," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×