Enski boltinn

West Ham vann öruggan 3-0 sigur á Fulham í fyrsta leik Carroll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Andy Carroll byrjaði vel með West Ham þegar liðið vann 3-0 heimasigur á Fulham í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Carroll átti stóran þátt í tveimur af þremur mörkum liðsins og West Ham fagnaði frábærum sigri en öll þrjú mörk liðsins komu í fyrri hálfleiknum.

West Ham er með sex stig eftir þrjár umferðir en lærisveinar Sam Allardyce unnu einnig Aston Villa í fyrsta heimaleik sínum. Skelfileg frammistaða á móti Swansea um síðustu helgi er nú gleymd og grafin eftir flotta frammistöðu í dag enda var sigurinn í dag afar sannfærandi.

Fulham vann Norwich 5-0 í fyrstu umferð en hefur síðan tapað þremur leikjum í röð, fyrir Manchester United og West Ham í deildinni og fyrir Sheffield Wednesday í deildarbikarnum.

Kevin Nolan kom West Ham í 1-0 eftir aðeins 53 sekúndur. Andy Carroll vann skallaeinvígi fyrir framan teiginn og Ricardo Vaz Te gaf boltann á Nolan sem skoraði með góðu skoti. Þetta var fljótasta mark í ensku úrvalsdeildinni síðan í nóvember 2005.

Andy Carroll var Fulham-vörninni erfiður og lagði einnig upp sláarskot Mohamed Diame á 10. mínútu. West Ham var miklu betra liðið og það hlaut að koma að því að þeir bættu við mörkum.

Winston Reid kom West Ham í 2-0 á 29. mínútu þegar hann skallaði inn hornspyrnu Matthew Taylor af harðfylgni og Taylor skoraði þriðja markið sjálfur á 42. mínútu þegar boltinn hrökk til hans í teignum eftir að varnarmenn Fulham voru í baráttu við Carroll eftir aukaspyrnu.

Dimitar Berbatov kom inn á sem varamaður hjá Fulham í hálfleik en Búlgaranum tókst ekki að laga stöðuna ekki frekar en öðrum leikmönnum Fulham. Sigur West Ham var öruggur og þeir komu heldur betur til baka eftir slakan leik á móti Swansea um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×