Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Ísland - Asberbaídsjan 1-2

Stefán Árni Pálsson á KR-velli skrifar
Asberbaídsjan bar sigur úr býtum gegn Íslandi, 2-1, í kvöld í undankeppni EM 2013 U-21 en leikurinn fór fram á KR-vellinum. Björn Bergmann Sigurðarson gerði eina mark Íslendinga í leiknum.

Íslendingar voru sterkir á upphafsmínútunum og greinilega vel stemmdir. Heimamenn blésu strax til sóknar og pressuðu vel á Aserana. Björn Bergmann Sigurðarson var frábær í fyrri hálfleiknum og sýndi oft á tíðum mögnuð tilþrif.

Eftir tæplega tuttugu mínútna leik náðu Íslendingar að komast yfir með fínu marki frá Birni Bergmanni en hann skallaði boltann í netið eftir sendingu frá Kristni Steindórssyni. Fimm mínútum síðar fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu þegar Kristinn Steindórsson braut á sóknarmanni Asera innan vítateigs.

Mirmuseyn Seyidov fór á punktinn fyrir gestina en Árni Snær Ólafsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna meistaralega. Staðan var 1-0 fyrir Íslandi í hálfleik.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn mikið mun betur og ætluðu sér greinilega að jafna metinn sem fyrst. Aserar voru skipulagði og pressuðu Íslendinga hátt upp á völlinn.

Jöfnunarmarkið stóð þó nokkuð lengi á sér en það kom að lokum fimmtán mínútum fyrir leikslok þegar Araz Abdullayev fékk boltann rétt fyrir utan vítateig og hamraði honum í netið, alveg óverjandi fyrir Árna Snæ í markinu. Allt leit út fyrir að um jafntefli væri að ræða og liðið virtust ætla sættast á það. Þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma gerði Hörður Björgvin Magnússon sig sekan um skelfileg varnarmistök og Javid Imamverdi, leikmaður Asera, slapp einn í gegnum vörn Íslands.

Imamverdi var yfirvegaður og lyfti boltanum snyrtilega yfir Árna Snæ í markinu. Leiknum lauk því með 2-1 sigri Asera og Ísland því enn í neðsta sæti riðilsins með þrjú stig. Asberbaídsjan eru með sjö stig eftir sigurinn.

Eyjólfur: Saga okkar í þessari undankeppni
mynd/vilhelm
„Þetta eru gríðarleg vonbrigði," sagði Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari Íslands, eftir tapið í kvöld.

„Þetta er í raun okkar keppni í hnotskurn, heppnin hefur ekki verið með okkur. Við fengum fullt af færum en það vantaði bara að klára þau."

„Við vorum bara hreinlega of æstir á köflum í staðinn fyrir að vera skynsamir og láta boltann ganga."

„Við reyndum allt of mikið að spila okkur í gegnum vörn þeirra í stað þess að koma með þversendingar inn fyrir vörn þeirra, en þá fengum við langflest færin okkar."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.

Björn Bergmann: Við erum langbesta liðið í þessum riðli
Mynd/vilhelm
„Þetta er rosalega svekkjandi að tapa svona illa á heimavelli," sagði Björn Bergmann Sigurðarson, markaskorari Íslendinga, eftir leikinn í kvöld.

„Við vorum komnir marki yfir og þetta leit alls ekki illa út í byrjun síðari hálfleiks en síðan bara hleypum við þeim allt of mikið inn í leikinn."

„Við vorum allt of djúpir í síðari hálfleiknum og sóttum bara á tveimur mönnum, það býður hættunni heim."

„Við höfum verið gríðarlega óheppnir í þessum riðli en að mínu mati erum við langbesta liðið."

Björn Bergmann hefur verið orðaður við fjöldann allan af liðum í Evrópu að undanförnu og líklegt er að leikmaðurinn yfirgefi Lillestrøm fyrir næsta tímabil.

„Ég læt umboðsmann minn alfarið um þessi mál og hugsa ekki einu sinni út í þessa hluti. Það er að sjálfsögðu mikill heiður að vera orðaður við lið á Englandi og maður stefnir auðvita á stóra sviðið."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Björn með því að ýta hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×