Erlent

Tekst ekki að reka fleyg í samstarfið

Fyrstu skrefin í valdaskiptum í Afganistan verða tekin á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna í Brussel í dag. fréttablaðið/ap
Fyrstu skrefin í valdaskiptum í Afganistan verða tekin á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna í Brussel í dag. fréttablaðið/ap
„Óvinir Afganistans eru að reyna að reka fleyg á milli okkar en þeim mun ekki takast það. Við erum staðráðin í því að láta þeim ekki takast það,“ segir Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, um nýlegar innherjaárásir á alþjóðlegt herlið og öryggisyfirvöld í Afganistan. Fram kom á blaðamannafundi með háttsettum embættismönnum innan bandalagsins í gær að 53 hermenn hefðu látist í slíkum árásum það sem af er ári.

Málefni Afganistans verða í brennidepli á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna sem fer fram í Brussel í dag og á morgun, en þá munu fulltrúar NATO-ríkjanna og annarra ríkja sem taka þátt í aðgerðunum í Afganistan koma saman.

„Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir, ekki síst vegna innherjaárásanna, sem bæði alþjóðaliðið og Afganar hafa orðið fyrir barðinu á. Við þurfum að takast á við þessa ógn í samfélaginu og erum að gera það. Ég er nýbúinn að ræða við Karzai forseta. Við erum sammála um að þetta sé forgangsatriði og að við þurfum að gera allt sem við getum til að sporna við þessum árásum. Öll 50 ríkin sem taka þátt eru áfram skuldbundin verkefninu,“ sagði Rasmussen á fundi með blaðamönnum í Brussel í gær.

Rætt verður um framtíð Afganistans, hvernig staðið verður að því að afhenda Afgönum völd í landinu. „Ég geri ráð fyrir því að aðildarríkin og bandamenn okkar sendi skýr skilaboð um að við stöndum við markmiðin, við stöndum við áætlunina og við stöndum við tímamörkin. Markmiðið er að afhenda Afgönum völdin, áætlunin er að þjálfa gott öryggislið og tímamörkin eru 2014,“ sagði Rasmussen.

Fyrstu skrefin í endanlegum valdaskiptum verða sögn Rasmussen tekin á fundinum nú og næstu skref verða tekin á fundi ráðherranna í febrúar og um mitt næsta ár verður að mestu búið að skipuleggja brottflutninginn. Rasmussen segir hins vegar of snemmt að segja til um hversu margir hermenn verði eftir í landinu eftir 2014 eða hvaða ríki muni taka þátt í framhaldinu.thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×