Íslenski boltinn

KR-ingar búnir að tapa öllum þremur seinni hálfleikjunum 1-2

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Mynd/Vilhelm
Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, sá til þess að Íslandsmeistararnir misstu ekki frá sér sigur í þriðja leiknum í röð þegar hann varði víti frá Eyjamanninum Matt Garner í uppbótartíma í 3-2 sigri KR á ÍBV í 3. umferð Pepsi-deildar karla á KR-vellinum í gær.

KR-liðið hafði missti niður 2-0 forystu í jafntefli á móti Stjörnunni í fyrstu umferð og töpuðu 2-3 á móti ÍA upp á Akranesi eftir að hafa komist í 1-0 snemma leiks. KR-ingar komust í 2-0 í fyrri hálfleik á móti Eyjamönnum en fengu síðan á sig tvö mörk á fyrstu 22 mínútunum í seinni hálfleik.

Kjartan Henry Finnbogason kom KR í 3-2 á 72. mínútu sem reyndist vera sigurmark leiksins þar sem að Hannes sá til þess með því að verja vítið í lokin.

KR-ingar hafa nú fengið á sig sex mörk í seinni hálfleik í fyrstu þremur leikjunum en í fyrrasumar fékk KR-liðið aðeins á sig samtals tólf mörk í seinni hálfleik í öllum umferðunum tuttugu og tveimur.

Fyrri hálfleikirnir hjá KR í Pepsi-deildinni í sumar:

KR-Stjarnan 1-0

ÍA-KR 1-1

KR-ÍBV 2-0

Samanlagt: 4-1

Seinni hálfleikirnir hjá KR í Pepsi-deildinni í sumar:

KR-Stjarnan 1-2

ÍA-KR 2-1

KR-ÍBV 1-2

Samanlagt: 3-6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×