Innlent

"Takmarkanir skapa auðlindina"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mynd/GVA
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann ræddi þar um hugtökin þjóðareign og auðlind og síbreytilegt eðli þeirra.

Pétur telur að viss umræða þurfi að fara fram hér landi um skilgreiningu auðlinda og hvers konar eign er átt við þegar rætt er um þjóðareign.

Hann bendir á að fiskurinn í sjónum sé ekki sem slíkur þjóðareign, heldur grundvallast eignin í veiðunum sjálfum. „Það er mikill munur á því að mega veiða fisk og að eiga fiskinn," segir Pétur.

„Veiðar voru takmarkaðar á Íslandi árið 1984 vegnar neyðar," segir Pétur. „Menn óttuðust að fiskurinn myndi á endanum klárast enda var tæknin orðin svo góð í fiskveiðum. Um leið og aðgengi að fiskveiðistofnum var heft þá voru verðmæti sköpuð og þjóðareign varð til. Það er þessi takmörkun sem skapar auðlindina."

Hann bendir á að fallorkan og jarðvarmaorkan hafi hvorugt verið talið auðlind fyrir 100 árum eða svo. Þessar skilgreiningar taki síðan breytingum þegar framfarir verða í tækni. Hið sama má segja um tíðnisvið útvarpsbylgja sem notaðar eru til að flytja skilaboð milli raftækja — Pétur telur að þetta sé ný auðlind sem nú þurfi að skilgreina.

Þá telur Pétur að þingmenn ættu að stíga varlega til jarðar þegar kvótamálin eru rædd.

„Núna erum við í þeirri stöðu að ítrekað hefur verið reynt að taka kvótann af útgerðarmönnum," segir Pétur. „Þeir búa við endalausar árásir og óörugga atvinnu. Þetta hamlar því að menn fjárfesti og stundi atvinnu — þetta er afar slæmt fyrir þjóðina."

Hægt er að hlusta á áhugavert viðtal við Pétur Blöndal hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×