Íslenski boltinn

Hundrað ár liðin frá fyrsta leik í Íslandsmótinu í fótbolta

Mynd/Heimasíða KSÍ
Í dag, 28. júní, eru liðin nákvæmlega 100 ár frá fyrsta leiknum sem fram fór í Íslandsmóti í knattspyrnu. Þennan dag árið 1912 mættust Fram og KR, sem þá hét reyndar Fótboltafélag Reykjavíkur, í kappleik á Melavellinum. Úrslit leiksins urðu jafntefli, 1-1, og var það Framarinn Pétur J. Hoffmann Magnússon sem skoraði fyrsta markið. Þetta kemur fram á KSÍ.is.

Dómari leiksins var Ólafur Rósenkranz leikfimikennari á sjötugsaldri, og fékk hann fína umsögn fyrir frammistöðuna. Í Ísafold var ritað: "Dómarinn verður að hlaupa fullt eins mikið, ef eigi meira en þeir sem í leiknum eru. Var Ólafur þarna lifandi sönnun þess, hvað leikfimin fær áorkað um að halda manninum fráum og fimum fram í elliár. Því eigi gaf Ólafur þeim eftir unglingunum í leiknum um hlaup." Og í lok umfjöllunar um dómarann spyr sá sem ritar (Ego): "Mundi það raunar einsdæmi um allan heim, að maður á sjötugsaldri sé fær um að vera leikdómari í kappknattspyrnu?"

Framarar, sem höfðu á að skipa nokkru yngri leikmönnum en KR-ingar, voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með marki fyrrgreinds Péturs Hoffmans. En í síðari hálfleik voru það liðsmenn KR sem sóttu harðar að marki og uppskáru fljótlega mark. Þar var að verki Ludvig Arne Einarsson.

Hvorugu liði tókst þó að bæta við marki, og í niðurlagi umfjölunar Ísafoldar um leikinn segir meðal annars: "En sú ánægja veittist hvorugum flokknum. Þeir sveittust við báðir, þutu með knöttinn af allri orku, sóttu í mörkin af heljarákafa. En allt kom fyrir ekki. Félögin sátu með sinn vinninginn hvort. Það er nú komin allmikil mynd á knattspyrnuna, svo að ómenguð ánægja er að horfa á með köflum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×