Fótbolti

Nani: Ronaldo heimtaði að fá að taka síðustu spyrnuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nani, leikmaður Manchester United og portúgalska landsliðsins, hefur greint frá því að Cristiano Ronaldo hafi krafist þess að fá að taka síðustu spyrnuna í vítaspyrnukeppninni gegn Spáni í undanúrslitum EM 2012.

Það kom reyndar aldrei til þess þar sem að þeir Joao Moutinho og Bruno Alves klúðruðu báðir sínum spyrnum. Spánverjar komust í úrslitaleikinn þar sem þeir fóru létt með Ítali, 4-0.

Nani sagði við fjölmiðla ytra að það hefði ekki verið deilt um hver ætti að taka hvaða spyrnu. „Cristiano krafðist þess samt að fá að taka síðustu spyrnuna. Ég sagði þjálfaranum að ég myndi hlýða hvaða skipun sem er," sagði Nani.

„Mér fannst það ekki skipta máli því vítaspyrnukeppni ræðst á heppni og við áttum ekki skilið að tapa á þennan máta."

„Þetta voru vissulega vonbrigði en við gáfum allt í þetta sem við áttum. Spánverjar voru heppnari á endanum en við vorum stoltir af okkar afrekum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×