Íslenski boltinn

Atli: Ég er alls ekki markagráðugur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atli skoraði eitt og lagði upp tvö í heimaleiknum gegn Fylki. Fréttablaðið/Daníel
Atli skoraði eitt og lagði upp tvö í heimaleiknum gegn Fylki. Fréttablaðið/Daníel
„Það er ekki oft sem maður vinnur svona stórt í efstu deild. Ég hef aldrei lent í þessu áður. Þetta er sérstakt," segir Atli um stórsigurinn gegn Fylki, 8-0, sem vakti mikla athygli.

„Það gekk allt upp sóknarlega hjá okkur. Við spiluðum mjög vel úti á vellinum, sköpuðum okkur færi sem við nýttum vel. Á svoleiðis dögum skorum við mörg mörk," segir Atli sem segir ljóst að Fylkisliðið hafi ekki átt sinn besta dag.

Árni Freyr, yngri en um leið töluvert hávaxnari bróðir Atla, var í Fylkisliðinu. Atli sagði ekkert annað í stöðunni fyrir hann og Fylkismenn en að setja hausinn upp í loft og halda áfram.

„Hann tók þessu eins og maður og skutlaði mér meira að segja heim eftir leikinn," segir Atli og bætir við að þeim bræðrum sé vel til vina og að engin vandræðaleg þögn hafi verið í bílnum á leiðinni heim.

„Við erum góðir vinir og hefðum spjallað saman hvort sem þeir hefðu unnið eða við," segir Atli.

Þótt Atli hafi verið iðinn við kolann í markaskorun undanfarin ár hefur hann ekki gert minna af því að leggja upp mörk fyrir félagana.

„Það er engin markagræðgi í mér. Ég er bara liðsmaður og nokkuð góður sem slíkur. Ef það er einhver í betra færi gef ég boltann."

FH og Fylkir mætast aftur á föstudagskvöld, þá í 32-liða úrslitum bikarsins í Kaplakrika. Atli reiknar ekki með því að leikmenn FH mæti með hangandi hendi í þann leik þrátt fyrir upprúllunina.

„Miðað við alla reynsluna í liðinu þætti mér það ólíklegt. Þótt leikurinn hafi unnist 8-0 fengum við bara þrjú stig," segir Atli og bendir á að það þýði ekki að fagna einum sigri of mikið.

Atli starfar sem stærðfræðikennari í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hann segir nemendur sína stundum skjóta á sig ef illa gengur í boltanum en hann taki því, líkt og hrósi þegar vel gengur, með stóískri ró.

„Við töpuðum 4-0 gegn Stjörnunni í fyrra og þá fékk maður aðeins að heyra það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×