Innlent

Tjón af völdum eldsvoða nam um 1,5 milljörðum króna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eldur kom upp í Hringrás í fyrra.
Eldur kom upp í Hringrás í fyrra. mynd/ vilhelm.
Eignartjón af völdum eldsvoða nam 1434 milljónum króna á síðasta ári og var 468 milljónum króna undir meðaltali áranna 1981-2011, eftir því sem fram kemur í ársskýrslu Mannvirkjastofnunar fyrir síðasta ár.

Í skýrslunni segir að tjón af völdum eldsvoða á Íslandi, hvort sem það er mælt í mannslífum eða eignatjóni, sé með því minnsta sem gerist miðað við nálæg lönd. Skýringar á minna eignatjóni séu vafalaust margar. Það hversu hús eru hér almennt lítil og steinsteypt og lítið um gömul hús á vafalaust stóran hlut að máli.

Enginn lést í eldsvoða

Enginn lést í eldsvoða í fyrra, hvorki í mannvirki né annars staðar, og er það fjórða árið frá aldamótum sem enginn ferst í eldsvoða. Alls hafa 58 manns farist í eldsvoðum í mannvirkjum frá árinu 1979 eða að meðaltali 1,72 á ári. Þetta samsvarar 0,63 banaslysum á ári á hverja 100 þúsund íbúa sem er um helmingur af því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Auk þessara aðila hafa níu manns farist í öðrum eldsvoðum, svo sem í skipum og bílum á þessu tímabili.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar nánar sést að flest banaslysin eru í janúar eða alls 13. Það er meira en tvöfaldur sá fjöldi sem er í næsta mánuði á eftir en fæst eru slysin í júní, júlí og nóvember eða tvö í hverjum mánuði. Flest verða slysin á laugardögum eða 12 talsins en fæst á þriðjudögum þegar þau eru þrjú. Þá er áberandi að flest slysin eru í upphafi mánaðar en fer fækkandi þegar líður á mánuðinn. Sé tíðni banaslysa skoðuð eftir mánaðardögum kemur í ljós að 38 prósent allra banaslysa á sér stað í fyrstu viku mánaðar en einungis 17 prósent á seinustu níu dögum mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×