Innlent

107 ára gamalt timburhús var jafnað við jörðu í dag

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Íbúar og aðrir sem áttu leið um Skólavörðustíg í dag fylgdust með þegar hundrað og sjö ára gamalt timburhús var jafnað við jörðu.

Húsið sem stóð við Skólavörðustíg 40 var byggt árið 1905 en það komst í fréttirnar sumarið 2009 þegar lögregla hafði afskipti af hústökufólki sem hafði komið sér þar fyrir. Nokkrum mánuðum síðar kom þar upp eldur en upptök hans eru talin hafa verið af mannavöldum.

Byrjað var að rífa þetta 107 ára gamla hús klukkan 10 í morgun og um miðjan dag var ekki mikið eftir af því.

Sú bygging sem rís á þessum reit verður jafn há og þær sem í kring eru, en þar verður að finna verslunaraðstöðu og íbúðir. Nokkrir vegfarendur sem fréttastofa talaði við í dag höfðu áhyggjur af lögmæti niðurrifsins en eigendum húsa, sem reist eru fyrir 1918, er skylt að leita álits hjá húsafriðunarnefnd ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa.

Þrisvar sinnum hefur verið fjallað um húsið hjá nefndinni frá árinu 2002 og gerði hún ekki athugasemd við að húsið yrði rifið. Það stóð vægast sagt illa að mati nefndarinnar og telur hún það geta verið umhverfinu til framdráttar að fá hús sem fellur betur í götumyndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×