Enski boltinn

Andy Carroll vill ekki fara til West Ham

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Þótt Liverpool og West Ham hafi komist að samkomulagi um leigusamning Carroll til Lundúnarfélagsins er málið langt í frá í höfn. Framherjinn virðist ekki vilja fara til West Ham.

BBC greindi frá því í gær að félögin hefðu komist að samkomulagi um tveggja milljóna punda leigufé á Carroll út næstu leiktíð. Að henni lokinni hefði West Ham möguleika á að kaupa Carroll á sautján milljónir punda.

Guardian greinir frá því í dag að Carroll hafi lítinn áhuga á að ganga til liðs við nýliða West Ham. Hann vilji fyrst og fremst berjast fyrir sæti sínu í liði Liverpool en annars lítist honum best á að ganga til liðs við fyrrum félaga sína hjá Newcastle.

Guardian hefur reyndar heimildir fyrir því að samkomulag West Ham og Liverpool sé þess efnis að Lundúnarfélagið þyrfti að kaupa Carroll héldi það sæti sínu í úrvalsdeildinni. Ekki væri um kauprétt eða möguleika að ræða líkt og haldið hefur verið fram í öðrum miðlum.

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, hefur fylgst vel með Carroll og farið fögrum orðum um hann. Sú staðreynd að Newcastle spilar í Evrópudeildinni í vetur er talin gera félagið að vænlegri kosti fyrir Carroll.

Laun Carroll gætu þó staðið í vegi fyrir endurkomu hans til Newcastle. Framherjinn stæðilegi fór úr 20 þúsund pundum á viku í 80 þúsund pund á viku hjá Liverpool. Þau laun eru umtalsvert hærri en gengur og gerist á launaskrá Newcastle.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×