Erlent

Mistókst að mynda stjórn

Evangelos Venizelos, leiðtogi Pasok, gekk í gær á fund Antonis Samaras, leiðtoga Nýs lýðræðis.nordicphotos/AFP
Evangelos Venizelos, leiðtogi Pasok, gekk í gær á fund Antonis Samaras, leiðtoga Nýs lýðræðis.nordicphotos/AFP
„Við reyndum allt mögulegt,“ sagði Antonis Samaras, leiðtogi íhaldsflokksins Nýs lýðræðis í Grikklandi í gær, eftir að hann gaf frá sér stjórnarmyndunarviðræður í landinu.

Eftir þingkosningarnar á sunnudag er flokkur hans orðinn fjölmennasti flokkurinn á gríska þinginu og fékk í krafti þess umboð til þess að mynda ríkisstjórn. Það tókst ekki og því fær næststærsti flokkurinn, Syriza, bandalag róttækra vinstri flokka, umboðið. Karolos Papoulias forseti ætlar að funda með Alexis Tsipras, leiðtoga Syriza, í dag. Hann hefur þó aðeins þrjá daga til þess að mynda stjórn. Flokkurinn hefur sagst stefna að því að mynda vinstri stjórn í landinu til þess að hafna fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í núverandi mynd.

Takist það ekki fær jafnaðarmannaflokkurinn Pasok að spreyta sig, og ef ekkert gengur þá fær forseti landsins það hlutverk að kalla leiðtoga allra flokka á sinn fund í von um að geta komið saman þjóðstjórn. Skili sú tilraun engu þá verður að efna til kosninga á ný, og yrðu þær þá væntanlega haldnar strax í júní. Dagsetningin 17. júní hefur verið nefnd í því samhengi.

Vandinn er sá að um svipað leyti þurfa grísk stjórnvöld að skila af sér nákvæmri áætlun um niðurskurð upp á 14,5 milljarða evra fyrir árin 2013 og 2014. Í júní stendur einnig til að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greiði Grikkjum 30 milljarða evra innborgun inn á neyðarlánin, sem eiga að tryggja að gríska ríkið geti borgað næstu afborganir af óheyrilegum skuldum sínum.

Vinstri flokkarnir þrír, Pasok, Syriza og Lýðræðislegi vinstri flokkurinn, eru aðeins með 112 þingmenn samtals og geta því ekki myndað meirihlutastjórn án þess að fá fjórða flokkinn til að slást í hópinn. Hvorki Kommúnistaflokkurinn né nýnasistar þykja stjórntækir og flokkur Sjálfstæðra Grikkja yrði væntanlega frekar óútreiknanlegur í stjórnarsamstarfi. Allir þessir flokkar hafa hins vegar lýst því yfir, að þeir vilji semja um breytingar á skilmálum fjárhagsaðstoðarinnar frá ESB og AGS, einnig flokkarnir tveir sem voru við völd nú í vetur og sömdu um skilmálana.

Líkurnar á því að stjórnmálakreppan í landinu dýpki enn og að aðrar kosningar verði haldnar í júní aukast því.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×