Þýska blaðið Kicker greindi frá því í kvöld að Swansea hafi boðið Hoffenheim níu milljónir evra, tæpan einn og hálfan milljarð króna, í Gylfa Þór Sigurðsson.
Eins og áður hefur komið fram eru félögin nálægt því að komast að samkomulagi um kaupverð. Swansea bauð fyrst fimm milljónir evra í Gylfa sem Hoffenheim hafnaði umsvifalaust.
Stjórnarformaður Swansea hefur dvalið í Þýskalandi síðustu daga til að freista þess að ganga frá kaupum á Gylfa, sem lék með Swansea sem lánsmaður á síðari hluta tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi er samningsbundinn Hoffenheim til 2014 og var keyptur til félagsins frá Reading fyrir sjö milljónir evra fyrir tæpum tveimur árum síðan.
Eiður Smári Guðjohnsen var á sínum tíma sagður hafa farið á tólf milljónir evra árið 2006 þegar Barcelona keypti hann frá Chelsea, samkvæmt spænskum fjölmiðlum.
Kicker: Swansea bauð 1,5 milljarða í Gylfa

Tengdar fréttir

Swansea nálægt því að ná samningum við Hoffenheim
Samkvæmt fjölmiðlum í Wales er Swansea á góðri leið með að semja við þýska liðið Hoffenheim um kaupverð á Gylfa Þór Sigurðssyni.