Innlent

Flugstöðin orðin mikilvægasta vinnusvæði Suðurnesja

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli og næsta nágrenni hennar eru orðin stærsta vinnusvæði Suðurnesja og skapa allt að fimmtánhundruð manns atvinnu.

Lengi vel stóð Leifsstöð heldur einmana uppi á Miðnesheiði en á seinni árum hafa aðrar þjónustubyggingar sprottið upp við hlið hennar. Mönnum telst til að fyrirtækin vestan flugstöðvarinnar, sem sinna margvíslegri þjónustu við farþega og flugvélar, séu nú orðin 25-26 talsins.

Guðmundur Björnsson, formaður skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar, segir að upp úr árinu 2000 hafi fyrstu lóðinni verið úthlutað undir bílaleigu á þessu svæði og síðan hafi orðið sprenging í þessari starfsemi. Þróunin hafi þó stöðvast í hruninu en sé nú að fara af stað aftur.

Þarna eru allar stærstur bílaleigur landsins með aðstöðu, þarna eru vörugeymslur og tollafgreiðsla fyrir flugfrakt, eldsneytisþjónusta og viðgerðaverkstæði fyrir flugvélar en þar er viðhaldsstöð Icelandair stærst, með um 300 manns í vinnu. Og þá er flugstöðin sjálf ótalin með tugum fyrirtækja.

Guðmundur segir að þetta sé orðið stærsta vinnusvæði á Suðurnesjum. Starfsmannafjöldinn sé mismunandi eftir árstíðum, frá 600-700 mann og upp í 1.500 manns á háannatíma á sumrin. Og menn giska jafnvel á að starfsmannafjöldinn í Leifsstöð og nágrenni fari í 1800 manns í sumar og sjá ekkert annað í spilunum en að uppbygging þjónustu við flugið haldi áfram að vaxa, í takti við vöxtinn í fluginu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.