Innlent

Dómstólarnir með opið hús

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómstólarnir verða með opið hús á laugardag, milli klukkan 11 og 14, í tilefni af 20 ára afmæli dómstólanna. Þar gefst almenningi kostur á að kynna sér starfsemi dómstólanna, fara í skoðunarferðir um dómhúsin og sitja sýndarréttarhöld í Héraðsdómi Reykjavíkur sem Háskólinn í Reykjavík mun leiða. Þá gefst gestum tækifæri til að koma með nytsamlegar ábendingar í „skilaboðaskjóðu", sem liggur fyrir í anddyri hvers dómstóls. Í hana eru allar ábendingar vel þegnar er snúa að starfsemi dómstólanna, bæði hvað sé gott í starfinu og það sem betur má fara.

„Það má kannski segja að þetta er lokahnykkurinn í þeirri vinnu sem dómstólar og dómstólaráð hafa ráðist í . Dómstólaráð lauk stefnumótunarvinnu sinni í vor. Þar voru meðal annars sett upp gildi fyrir starfsemina og eitt af þeim er traust. menn telja mikilvægt að kynna starfsemi dómstólanna betur. Þó svo meginreglan sé opinber málsmeðferð og dómar standi almenningi opin, þá er fólk kannski ekki að koma í dómhúsin," segir Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs. Í tilefni af 20 ára afmælinu hafi því þótt rétt að bjóða fólki á opið hús.

Héraðsdómur Reykjavíkur við Austurstræti, Héraðsdómur Austurlands við Lyngás 15 á Egilsstöðum, Héraðsdómur Suðurlands við Austurveg 4 á Selfossi, og Héraðsdómur Reykjaness við Fjarðargötu 9 í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×