Erlent

Þrír handteknir vegna gruns um hryðjuverkaundirbúning

Friðrik Indriðason skrifar
Danska leyniþjónustan hefur handtekið þrjá unga menn sem grunaðir eru um að hafa undirbúið hryðjuverk í Danmörku. Jafnframt var lagt hald á hríðskotabyssur og skotfæri í þær.

Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að leyniþjónustan, í samvinnu við lögregluna í Kaupmannahöfn hafi látið til skarar skríða í morgun gegn þremenningunum og voru þeir handteknir í íbúð í Herlev einu af úthverfum Kaupmannahafnar. Fyrir utan skotvopnin lagði lögreglan hald á tvo bílaleigubíla sem þremenningarnir höfðu til umráða. Ítarlegri leit stendur nú yfir í íbúðinni í Herlev.

Mennirnir þrír sem hér um ræðir eru allir rétt rúmlega tvítugir. Einn þeirra er jórdanskur ríkisborgari en búsettur í Danmörku, annar er tyrkneskur ríkisborgari einnig búsettur í Danmörku en sá þriðji er danskur ríkisborgari búsettur í Egyptalandi.

Engar upplýsingar hafa fengist um í hverju hið meinta hryðjuverk var fólgið en reiknað er með að gæsluvarðhaldsúrskurður verði kveðinn upp yfir þremenningunum í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×