Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Stjarnan 0-2

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stjarnan vann frábæran sigur, 2-0, á Val að Hlíðarenda í kvöld en bæði mörk liðsins komu í fyrri hálfleik. Liðið komst því í þriðja sætið og skaust upp fyrir ÍBV og ÍA en Stjarnan er sem stendur með 29 stig, aðeins tveimur stigum á eftir KR.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur og fengu nokkur ákjósanleg færi fyrstu tuttugu mínútur leiksins en náði ekki að koma boltanum í netið en Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar, varði eins og skepna í leiknum og Valsmenn komust einfaldlega ekki framhjá Ingvari.

Það var síðan Gunnar Örn Jónsson sem gerði fyrsta mark Stjörnunnar eftir 25 mínútna leik þegar hann stýrði boltanum laglega framhjá Sindra Snæ í marki Vals eftir sendingu frá Alexander Scholz.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins átti Atli Jóhannsson magnaða stungusendingu inn fyrir vörn Valsmann á Kennie Knak Chopart sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið.

Valsmenn reyndu hvað þeir gátu í síðari hálfleiknum en allt kom fyrir ekki og þeir náðu ekki að setja mark sitt á leikinn.

Niðurstaðan því 2-0 sigur Stjörnunnar sem halda áfram að ná í stig á útivelli. Valur heldur aftur á móti áfram að vera óstöðugt lið sem á í erfileikum með að vinna tvo leiki í röð.

Ingvar Jónsson: Þetta var minn besti leikur í sumar
„Það var gríðarlega mikilvægt að halda markinu hreinu í kvöld," sagði Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar, eftir sigurinn í kvöld.

„Það var einnig mjög mikilvægt að ná inn öðru marki rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins og fara með væna forystu inn í klefa".

„Ég hrök í gang þegar ég lenti í samstuði í byrjun leiksins, þetta var líklega besti leikurinn minn í sumar. Við ætlum okkur að ná í þetta Evrópusæti, það er alveg á hreinu."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.

Atli Sveinn: Við nýttum ekki okkar færi á meðan hlutirnir gengu upp hjá þeim
„Við höfum alveg spilað verra í sumar en þetta féll bara ekki með okkur í kvöld," sagði Atli Sveinn Þórarinsson, leikmaður Vals, eftir tapið í kvöld.

„Ingvar var okkur erfiður í markinu og við áttum erfitt með að komast framhjá honum. Við nýttum ekki okkar færi í leiknum á meðan þeir gerðu hið andstæða, það þýðir ekki að dvelja við það og við þurfum bara að halda áfram."

„Þetta er virkilega þéttur pakki í deildinni og við ætlum okkur ennþá að þoka okkur aðeins ofar."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu með því að ýta hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×