Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Fram 1-0

Kolbeinn Tumi Daðason á Fylkisvelli skrifar
Mynd/Stefán
Davíð Þór Ásbjörnsson skoraði sigurmark Fylkis gegn Fram í Árbænum í kvöld. Markið, sem var ansi skrautlegt, kemur Fylkismönnum í níu stig en Framarar sitja í þriðja neðsta sæti deildarinnar með sex stig.

Leikurinn í Árbænum var frekar tíðindalítill. Besta færi fyrri hálfleiksins fékk Oddur Ingi Guðmundsson miðjumaður Fylkis strax á 3. mínútu. Ögmundur var þá kominn út úr marki sínu og Oddur með því sem næst með opið mark fyrir framan sig. Skotið var hins vegar slakt og gestirnir björguðu á línu.

Fylkismenn höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik, með naumindum þó, en Framarar sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á hálfleikinn. Mest bar á Steven Lennon sem átti fína spretti en samherjar hans voru seinir fram á við og lítið kom úr fínum hlaupum Skotans.

Hægagangurinn var svipaður í síðari hálfleiknum en Árbæingar höfðu enn frumkvæðið. Það var því ekkert annað en sanngjarnt þegar þeir komust yfir. Davíð Þór Ásbjörnsson tók þá aukaspyrnu af um 25 metra færi. Boltinn þröngvaði sér í gegnum varnarvegg Framara, breytti um stefnu og Ögmundur þurfti að sjá á eftir boltanum neðst í markmannshornið.

Eins og gefur að skilja reyndu Framarar að bæta í sóknina í kjölfarið en með engum árangri. Lennon átti þokkalegt skot sem Bjarni Þórður varði og Fylkismenn komust í raun nær því að bæta við marki. Þá lét varamaðurinn Finnur Ólafsson vaða frá miðlínu vallarins er hann sá að Ögmundur var kominn framarlega í markinu. Ögmundi tókst þó að bjarga sér fyrir horn en það var einmitt uppskera Fylkismanna í kjölfarið.

Úr horninu varð hins vegar ekkert frekar en úr öðrum sóknaraðgerðum leikmanna beggja liða og Árbæingar fögnuðu 50 prósent stigaaukningu í sumar. Liðið komið með níu stig en Framarar sitja í þriðja neðsta sæti með sex stig.

Fylkismenn unnu leikinn í kvöld á baráttu og vilja frekar en góðum fótbolta. Allir voru klárir í slaginn og leikgleðin skein úr andlitum heimamanna ólíkt hjá gestunum sem virkuðu oft á tíðum pirraðir.

Írinn David Elebert batt vörn heimamanna vel saman, Davíð Þór var flottur á miðjunni og Bjarni Þórður öruggur í markinu.

Framarar söknuðu greinilega vinstri bakvarðarins Sam Tillen sem var frá vegna kálfameiðsla en Englendingurinn hefur lagt upp ófá mörk Safamýrapilta í sumar. Alan Lowing stóð vaktina í vinstri bakverðinum ágætlega varnarlega en ógnin fram á við vinstra megin var engin.

Auk Tillen voru Halldór Hermann Jónsson og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson frá vegna meiðsla. Skarð fyrir skildi enda glíma Framarar við næg vandamál svo meiðsli bætist ekki við.

Kristján Hauksson barðist sem fyrr í vörn Framara en annars var Steven Lennon áberandi skástur Safamýrarpilta fram á við.

Kantmennirnir Kristinn Ingi og Hólmbert Aron voru í litlum takti við leikinn og lítið sjálfstraust heilt yfir í leik Framara. Andleysi þeirra er farið að minna skuggalega mikið á gang mála hjá þeim bláklæddu síðasta sumar.

Steven Lennon: Breytinga er þörfSteven Lennon, framherji Framara, var sá eini með lífsmarki í sóknarleik Safamýrarpilta í Árbænum í kvöld. Lennon segir breytinga þörf hjá Frömurum, annaðhvort að skipta út mönnum eða breyta um leikkerfi.

"Sagan endurtekur sig í hverri viku. Við spilum alltof hægan bolta. Fyrir framherja er auðvitað pirrandi að vera kennt um að skora ekki mörkin. Ég get bent á suma miðjumennina og kennt þeim um að vera ekki mættir í teiginn eftir hlaupin mín. Menn geta ekki reiknað með því að ég gangi framhjá þremur leikmönnum og skori," sagði Lennon svekktur og pirraður í leikslok.

Framarar voru án Sam Tillen og Halldórs Hermanns Jónssonar sem glíma við lítilsháttar meiðsli á kálfa. Auk þess var Ásgeir Gunnar Ásgeirsson uppi í stúku vegna ökklameiðsla. Lennon segir liðið sérstaklega hafa saknað Tillen.

„Tillen hefur lagt upp flest mörk okkar í sumar og hver átti að leggja upp fyrir utan Hewson og kannski Kidda (Kristin Inga) fyrst hann var fjarri," segir Lennon og bætir við að þeir leikmenn sem séu á bekknum verði að vera klárir í slaginn þegar kallið kemur.

Framarar sitja í þriðja neðsta sæti eftir sjö umferðir með sex stig. Liðið hefur í þokkabót leikið leik meira en öll önnur lið í deildinni ef frá er talið Fylkisliðið.

„Við vildum gera góða hluti á þessari leiktíð, reyna að berjast um þrjú efstu sætin en hingað til hefur enginn, ég meðtalinn, staðið sig nógu vel," segir Lennon sem telur að breytinga sé þörf hjá þeim bláklæddu.

„Ef þú breytir engu halda úrslitin áfram að verða þau sömu. Það þarf miklar breytingar hvort sem það er að skipta mönnum út eða breyta um leikskipulag. Það er auðvelt að halla sér aftur og minnast góðs undirbúningstímabils en í sumar sjá allir að það er ekkert í gangi. Það er ekkert flæði á boltanum hjá okkur og ef breytinga er þörf þarf að gera þær," segir Lennon sem segir Framara ekki sakna gervigrass sem undirlags en liðið virtist óstöðvandi í innanhússboltanum í vetur.

„Það held ég ekki. Við byrjuðum tímabilið illa og þegar þú ert í botnbaráttu er heppnin aldrei með þér. Hlutirnir falla með liðum sem eru á sigurgöngu," sagði Skotinn marksækni.

David Elebert: Stundum er gott að fá spark í rassinn„Þetta var ekki fallegasti fótboltinn en ég held að við höfum átt sigurinn skilinn," sagði David Elebert miðvörður Fylkis og besti maður vallarins að mati undirritaðs í 1-0 sigri Árbæinga á Fylki.

„Við vorum agaðir og skipulagðir í leik okkar í kvöld. Við komum í veg fyrir að þeir næðu að skapa sér færi, sérstaklega í síðari hálfleik. Þeir áttu í mesta lagi eitt til tvö skot á markið af löngu færi," sagði Elebert og viðurkenndi að hafa fengið skilaboð um að hafa gætur á Steven Lennon, framherja Framara.

„Hann er augljóslega góður leikmaður og Ásmundur og strákarnir höfðu sagt mér frá honum, styrkleikum hans og veikleikum. Við urðum að fylgjast með honum enda var hann langhættulegasti leikmaður þeirra. Mér fannst við gera það vel," sagði Elebert.

Aðspurður hvort Fylkir hafi þurft á 8-0 rassskellingunni í Kaplakrika á dögunum að halda til að byrja að vinna leikinn segir Elebert:

„Ég veit það ekki. Mér fannst við byrja tímabilið vel en 8-0 leikurinn var auðvitað dæld í dagatalið hjá okkur. Stundum er gott að fá spark í rassinn en tapið var auðmýkjandi. Við höfum sýnt okkar rétta andlit í síðustu tveimur leikjum, látið finna fyrir okkur, verið skipulagðir og þannig erum við bestir."

Elebert sem er írskur var þó ekki sáttur við landa sína sem steinlágu gegn Spánverjum 4-0 á Evrópumótinu í knattspyrnu fyrr í kvöld.

„Já, ég heyrði úrslitin þegar ég kom inn í klefa og fékk vægt áfall. Það minnkar samt ekkert ánægjuna með stigin þrjú í kvöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×