Erlent

Harmleikur í Connecticut - ein versta skotárás í sögu Bandaríkjanna

Hátt í þrjátíu féllu í skotárás í grunnskóla í bænum Newtown í Connecticut í Bandaríkjunum í dag. Yfirvöld í Newtown hafa staðfest að 18 börn létust í árásinni.

Skotárásin átti sér stað í grunnskólanum Sandy Hook í Newtown í vesturhluta Connecticut.

Aðeins um þrjátíu þúsund manns búa í Newton. Sex hundruð börn eru í skólanum, allt niður í fimm ára gömul.

Talið að árásarmaðurinn, sem lést í skólanum, hafi verið faðir eins nemanda í skólanum og var hann vopnaður tveimur byssum, þar á meðal .223 kalíbera riffli. Þá hafa borist fregnir af því að karlmaður á tvítugsaldri sé í haldi lögreglu, grunaður um aðild að árásinni.

Skotárásin átti sér stað í grunnskólanum Sandy Hook í Newtown í vesturhluta Connecticut.mynd/google
Fréttamaður ABC fréttastofunnar hefur eftir kennara í Sandy Hook að nemendurnir hafi verið afar snöggir að yfirgefa skólann. Þeim var skipað að velja sér einn „vin," gripa í hann og hlaupa í átt að slökkviliðsstöð sem er steinsnar frá skólanum.

Þá hafa einnig borist fregnir af því að kennarar við Sandy Hook hafi unnið mikið þrekvirki við að rýma skólann.

Ekki er vitað hvort að árásarmaðurinn svipti sig lífi eða hvort að hann hafi verið felldur af lögreglumönnum. Þá hafa einnig borist fregnir af því að vígamaðurinn hafi átt sér vitorðsmann. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest.

Að minnsta kosti einn kennari lést í árásinni. Talið er að fórnarlömbin hafi verið 27 talsins. Þá voru þrír fluttir lífshættulega slasaðir á sjúkrahús.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hafði samband við Dan Malloy, ríkisstjóra Connecticut stuttu eftir skotárásina. Hann vottaði honum og öllum íbúum Newtown samúð sína. Þá hét hann því að alríkisyfirvöld í Bandaríkjunum myndi veita stjórnvöldum í Connecticut alla þá aðstoð sem óskað væri eftir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.