Innlent

Dregur á vindi á Vestfjörðum - Rafmagn komið á Ísafjörð

Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Töluvert hefur dregið úr vindi á Vestfjarðakjálkanum frá því í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu er lítil ofankoma á Vestfjörðum en talsverður skafrenningur og kóf. Hið sama má segja um Norðurland vestra.

Þá segir að vegna snjóflóðahættu er lokað á Vestfjörðum um Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Botnsdal, Breiðadal og Flateyrarveg en á Norðurlandi bæði um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla.

Á Kjalarnesi má reikna með vindhviðum 30-35 m/s fram á miðjan daginn.

Rafmagn er annars komið á Ísafjörð. Þó hefur ekki verið hægt að koma rafmagni á lítið svæði í kringum fyrrum sorpbrennslustöðina Funa vegna bilunar sem talin er vera á Arnardalslínu sem tengist spennistöðinni í Funa. Báðar díselvélarnar á Ísafirði eru í gangi ásamt Tungudalsvirkjun og virkjun Dalsorku í Súgandafirði. Varaaflsvélar eru líka í gangi í Bolungarvík og sjá þær Hnífsdal fyrir rafmagni. Varaaflsvélar eru einnig keyrðar í Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og á Bíldudal.

Barðastrandarlína er biluð og er því ekki rafmagn á bæjum þar í kring. Bilun er einnig á sveitalínu í Dýrafirði. Ekki hefur verið hægt að koma rafmagni á sveitir í Önundarfirði.

Tálknafjarðarlína, Breiðadalslína 1 og Mjólkárlína 1 eru bilaðar og því er ekki hægt að koma rafmagni frá Mjólkárvirkjun. Bilanaleit mun hefjast strax og veður leyfir.

Geiradalslína, sem liggur milli Glerárskóga og Geiradals, er biluð og stendur bilanaleit yfir.

Ólafsvíkurlína, sem liggur frá Vegamótum að Ólafsvík, er biluð en um er að ræða brotna stæðu. Verið er að flytja viðgerðarefni á bilanastað og mun viðgerð hefjast í fyrramálið. Varaaflsvélar eru í gangi í Ólafsvík.

Vegna rafmagnstruflana á Vestfjörðum hafa orðið truflanir á fjarskiptum og eru GSM sendar á nokkrum stöðum sambandslausir. Sambandslaust er í GSM á Ströndum frá Drangsnesi, Hólmavík og suður fyrir Bitrufjörð.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun veðrið ganga hægt niður. Áfram má búast við stormi með éljum og snjókomu vel fram eftir degi og hvassviðri í kvöld. Á Kjalarnesi má reikna með vinhviðum þrjátíu til þrjátíu og fimm metrum á sekúndu. Allhvasst verður á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×