Innlent

Hvalur strandar "vitlausu megin“ við veg

BBI skrifar
Hvalurinn liggur í læknum.
Hvalurinn liggur í læknum. Mynd/Björg Björgvinsdóttir
Ung stúlka frá Grundarfirði ók í dag ásamt föður sínum fram á fremur óvenjulega sjón. Þau voru á leið frá Rifi til Ólafsvíkur og vegurinn lá meðfram sjónum. Á miðri leið blasti við þeim heljarinnar háhyrningur sem lá dauður í lækjarfarvegi við veginn - og hann lá „vitlausu megin við veginn".

Á þessum tiltekna stað liggur mjótt rör undir veginn þar sem vatnslítil á seytlar í gegn og út í sjó. Hvalurinn virðist hafa synt upp ána á flóði, upp að rörinu og þröngvað sér þar í gegn. Þar hefur hann svo strandað þar sem hann hefur ekki ratað aftur í gegn.

„Þetta var frekar lítið rör, bara rétt nógu stórt fyrir hann til að troðast í gegn," segir Björg Björgvinsdóttir, 15 ára stúlka frá Grundarfirði, sem ók fram á hvalinn ásamt föður sínum. „En þetta er eina leiðin sem hann hefur mögulega getað farið, nema hann hafi stokkið eins og í Free Willy yfir veginn."

Feðginin sáu hvalinn í dag og þykjast nokkuð viss um að um háhyrning sé að ræða, en af myndunum að dæma er það langlíklegast. Þau vita ekki hve langt er síðan hvalurinn endaði þarna.

„Nei, við héldum okkur bara í góðri fjarlægð til öryggis," segir Björg.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.