Innlent

Mesta heimilisofbeldið á Suðurnesjum

Reykjanesbær.
Reykjanesbær.
Samkvæmt rannsókn velferðarráðuneytisins svara yfir 23% einstaklinga á Suðurnesjum eldri en 18 ára því að þeir hafi orðið fyrir ofbeldi á heimilum. Samkvæmt sömu rannsókn hafa 3,6% orðið fyrir heimilisofbeldi á síðustu 12 mánuðum. Heimilisofbeldi er því hæst á Suðurnesjum að sögn Hjördísar Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar, sem Víkurfréttir ræddu við.

Það var nýleg rannsókn, sem gerð var á landsvísu, sem leiddi í ljós að töluvert væri um líkamlegt og andlegt ofbeldi í samböndum fólks á Suðurnesjum sem að ekki kæmist upp á yfirborðið. Í framhaldi af þessari rannsókn ákvað velferðarráðuneytið að hvetja sveitarfélög til að gera aðgerðaráætlun gegn heimilisofbeldi.

Félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurnesjum ákváðu að taka niðurstöðum rannsóknarinnar alvarlega, minnugar þess árangurs sem náðst hefur í baráttu við kynferðisofbeldi og að rjúfa þögnina í þeim málaflokki.

Svo segir í Víkurfréttum:

„Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir að það hafi tekið tíma að rjúfa þá þögn en í dag hefur baráttan skilað því að kynferðisofbeldi er almennt ekki liðið. Hún segir heimilisofbeldið á engan hátt öðruvísi. Það séu mál sem þurfi að ná upp á yfirborðið og taka á vandanum, sem samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins, er mikill á Suðurnesjum."

Þegar Hjördís er spurð um leiðir sem hægt er að fara í baráttunni gegn þessari skæðu vá svarar Hjördís:

„Við munum vinna náið með hjúkrunarfræðingum og skólunum og reyna að læra að þekkja það ef börn eru beitt ofbeldi á heimilum. Þar eru ákveðin einkenni sem má læra af. Svo þurfum við að skoða hvaða leiðir á að fara í að tilkynna ofbeldið. Við stefnum að því að vera með gátlista og spurningar til einstaklinga sem er að leita til heilsugæslunnar, okkar eða annarra aðila sem vinna að velferð. Þar verður m.a. spurt hvort viðkomandi hafi orðið fyrir ofbeldi og reynt að koma hlutum þannig fyrir að fólki finnist í lagi að tala um ofbeldi og rjúfa þögnina".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×