Innlent

Sviku dósir út úr bæjarbúum

Ísafjörður
Ísafjörður
Tveir ungir menn fóru um Ísafjörð og söfnuðu dósum á föstudag „fyrir Glímudeild Harðar" að eigin sögn. Af því tilefni vill glímudeildin tilkynna að engin dósasöfnun hefur verið í gangi og hafa þessir óprúttnu aðilar því verið að safna dósum undir fölsku flaggi en það er vefrit Bæjarins besta sem greinir frá.

Þar segir að eftir því sem blaðið kemst næst, safnar glímudeildin ekki dósum í fjáröflunarskyni, þar sem aðrir nota þær aðferðir við sína fjáröflun.

„Glímudeildin er í að sá í garða, slá gras og vinna ýmis verk eins og hreinsa upp flugelda eftir áramótin og hirða jólatré hjá fólki eftir jólin, enda er ekki gott að allir séu að nota sömu fjáröflunarleiðir, menn þurfa að finna upp á einhverju nýju í þeim efnum," segir Rúnar Brynjólfsson hjá glímudeild Harðar í samtali við Bæjarins besta.

Það hefur komið fyrir áður að ungir menn séu að safna dósum í nafni Harðar án þess að deildin sé að standa fyrir slíku átaki. Það er litið alvarlegum augum að menn séu að villa á sér heimildir og hafa þannig dósir og flöskur af fólki á fölskum forsendum. Rúnar segir að það verði kært til lögreglu ef svona lagað endurtekur sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×