Innlent

Ómerkilegur áróður Steingríms um að ekki verði borguð út laun

Þung orð féllu á Alþingi í dag þegar atvinnuvegaráðherra hvatti sjálfstæðis- og framsóknarmenn til að láta af málþófi í umræðu um fjárlagafrumvarpið. Ráðherra var á móti sakaður um hræðsluáróður.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefur nú staðið yfir í rúmar þrjátíu klukkustundir. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, sakað þingmenn Sjálfstæðis- og framsóknarflokks um málþóf í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Það vita það allir að það þarf að setja íslenska ríkinu fjárlög fyrir áramót þannig að hægt verði að borga hér út laun 1. janúar og svo framvegis. Það hefur aldrei áður á Íslandi verið svo óábyrg stjórnarandstaða að hún stofni afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins í hættu eða setji það í uppnám. Það mun þessi auðvitað ekki gera - hún gefa gefast upp og játa sig sigraða," sagði Steingrímur í samtali við fréttastofu.

Steingrímur hvatti stjórnarandstöðuna til láta af málþófi við upphaf þingfundar í dag. Þingmenn vísuðu þessum ásökunum á bug og sökuðu Steingrím um hræðsluáróður. Mikill hiti var í þingmönnum.

„Þetta var ómerkilegur áróður af hálfu háttvirts ráðherra Steingríms J. Sigfússonar að hræða fólk með það að það verði ekki borguð út laun, forseti hvetur þingmann til að virða hér tímamörk," sagði Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði fjárlagafrumvarpið vera meingallað og mörgu væri sópað undir teppi. Því væri full ástæða til að ræða málið ítarlega á Alþingi.

„Það hefur svo miklu verið sópað undir teppið í stjórnarráðinu að sumir segja að það geti ekki allir staðið uppréttir þar lengur," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Við erum að taka skref til baka í að endurreisa, þetta er miður frú forseti," sagði Magnús Orri Schram, Samfylkingunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×