Erlent

Yfir 180.000 manns misstu heimili sín vegna fellibylsins Bopha

Að minnsta kosti 330 fórust og 380 manns er saknað eftir að fellibylurinn Bopha reið yfir suðurhluta Filipseyja. Eignatjónið er gífurlegt.

Mindanao eyja varð verst úti en þar skildi fellibylurinn eftir sig um 700 kílómetra breiða slóð eyðileggingar þvert yfir eyjuna. Flest híbýli í þessari slóð eyðilögðust vegna ofsaveðursins, flóða og skriðufalla.

Yfir 180.000 manns eiga hvergi höfði sínu að halla eftir Bopha. Stjórnvöld leggja nú mesta áherslu á að koma upp neyðarskýlum fyrir þetta fólk.

Í Compostela dalnum fórust nær 200 manns þegar flóð skall á neyðarskýlum þar sem þetta fólk hafði leitað hælis undan fellibylnum.

Þá eru herskip á leið með vistir til austurhluta Mindanao en þar eru um 150.000 íbúar í þremur bæjum algerlega einangraðir þar sem allir vegir að bæjunum eru lokaðir vegna skriðufalla og brýr á þeim horfnar.

Bopha er nú kominn út á Suður Kínahaf en töluvert hefur dregið úr vindstyrk hans. Mikið úrhelli er hinsvegar enn til staðar á Mindanao og hætta á frekari flóðum á eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×