Fótbolti

Þjálfari Svisslendinga sýndi dómaranum fingurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ottmar Hitzfeld.
Ottmar Hitzfeld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ottmar Hitzfeld, þjálfari svissneska landsliðsins, er líklega á leiðinni í bann eftir að hann sýndi dómaranum fingurinn eftir jafnteflið á móti Noregi á föstudagskvöldið. Hitzfeld segist hafa verið að gefa sjálfum sér fingurinn en það þykir flestum vera veik vörn.

Sviss mætir á Laugardalsvöllinn á þriðjudagskvöldið þar sem liðin mætast í toppslag riðilsins en liðið sem vinnur leikinn situr eitt á toppnum.

Hinn 63 ára gamli Hitzfeld var alltað en sáttur með spænska dómarann Fernandez Borbalan í Noregsleiknum og talaði um það eftir leikinn að það hafi verið erfitt að vinna leikinn ellefu á móti tólf.

Myndir sýna Hitzfeld hinsvegar gefa spænska dómaranum tvisvar sinnum fingurinn og þjálfarinn hefur fengið á sig mikla gagnrýni í Sviss fyrir framkomu sína.

„Ég gerði þetta af því ég var ósáttur með sjálfan mig og vegna þess að við náðum ekki í öll þrjú stigin. Það er ekki hægt að refsa mér fyrir að gefa sjálfum mér fingurinn," sagði Ottmar Hitzfeld.

FIFA mun örugglega taka þetta mál fyrir en Hitzfeld verður þó örugglega með svissneska liðinu á Laugardalsvellinum. Hann gæti fengið bann eftir að aganefnd FIFA fundar eftir þetta landsleikjahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×