Innlent

Joly segir árangur Íslands í hvítflibbabrotum einstakan á heimsvísu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Eva Joly telur að árangur Íslands við rannsókn og saksókn efnahagsbrota sé einstakur á heimsvísu. Þá segist hún ástfangin af landi og þjóð og hyggst rækta tengsl sín við Ísland enn frekar.

Eva Joly, sem er þingmaður á Evrópuþingingu, er á Íslandi í stuttri heimsókn en hún hélt erindi um fjármálakreppuna í Hörpu í dag á vegum Samtaka fjárfesta og HÍ.

Joly, sem um tíma var ráðgjafi sérstaks saksóknara, segist gleðjast yfir því að rannsóknir embættisins séu að skila árangri. „Ég er mjög ánægð með að sjá að sterk mál hafa komið fyrir dómstóla og að saksóknararnir vinna þessi mál, að fólk sé dæmt til fangelsisvistar. Mér finnst þið mjög hugrökk. Þetta er alveg einstakt í heiminum. Í Bandaríkjunum og Bretlandi, þar sem bankamenn hafa gert jafnmikinn óskunda og á Íslandi, er enginn sóttur til saka. Þetta er mjög sterkt,“ segir Joly í samtali við fréttastofu.

Telur þú þá að Íslandi hafi orðið betur ágengt í að takast á við hvítflibbaglæpi en öðrum löndum? „Já, ég held að þið séuð orðnir miklir sérfræðingar og það er mjög athyglisvert að sjá að þið hafið gert þetta með innlendum mannafla, með því að styrkja hann, og öll keðjan hefur verið styrkt, líka dómstólarnir. Mér þykir þetta aðdáunarvert.“

Joly, sem bauð sig fram til forseta Frakklands í forsetakosningunum í vor en fékk nánast ekkert fylgi, mun áfram starfa á Evrópuþinginu og þá sinnir hún verkefnum fyrir afgönsk stjórnvöld. Hún hyggst áfram rækta tengslin við Ísland í gegnum Eva Joly Institute sem Jón Þórisson, umboðsmaður hennar hér á landi, fer fyrir. Um er að ræða frjáls félagasamtök um lýðræðisumbætur og réttlæti.

„Ég elska þetta land, mér finnst ég í rauninni eiga heima hérna. Mér líður vel hérna svo ég mun halda áfram að fylgjast með af miklum áhuga,“ segir Eva Joly. thorbjorn@stod2.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.