Innlent

Sóley: "Jafn fráleitt og að selja virkjanir eða veitustarfsemi“

Sóley Tómasdótitr er alfarið á móti því að Gagnaveit Reykjavíkurborgar verði seld.
Sóley Tómasdótitr er alfarið á móti því að Gagnaveit Reykjavíkurborgar verði seld.
„Ég er alfarið á móti því að við seljum innviði grunnþjónustunnar, þetta er jafn fráleitt og að selja virkjanir eða veitustarfsemi," segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, en eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu um að selja tæplega helmings hlut í Gagnaveitu Reykjavíkur.

RÚV greindi frá því á síðasta ári að Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 1999 lagt 13 milljarða í fjarskiptastarfsemi. Þar af hafa 4,7 milljarðar farið beint í Gagnaveitu Reykjavíkur frá stofnun hennar.

Gagnaveita Reykjavíkur var stofnuð sem einkahlutafélag árið 2007 og er að fullu í eigu Orkuveitunnar en skilið er á milli bókhalds þessara tveggja fyrirtækja. Gagnaveitan rekur gagnaflutningskerfi, meðal annars ljósleiðaratengingar, sem nær frá Bifröst í Borgarfirði til Vestmannaeyja og var skilgreind sem kjarnastarfsemi innan Orkuveitunnar þar til í haust.

Engu að síður er mikill vilji innan stjórnar til þess að selja hlut í veitunni, þannig hefur Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, lýst því yfir að hann vilji selja fyrirtækið til þess að rétta af bága stöðu Orkuveitunnar sem hefur gengið í gegnum miklar aðhaldsaðgerðir eftir hrun.

Sóley segir Orkuveitu Reykjavíkur eiga fjölmargt annað sem megi selja. Hún bendir á Perluna, Orkuveituhúsið og svo Magma-skuldabréf sem metið er á tæpa átta milljarða króna.

„Það sem við þurfum er lausafé, og við þurfum það núna, það viðurkenni ég vel. Þess vegna eigum við að leggja höfuðáherslu á að selja það sem seljanlegt er, einmitt til þess að verja innviði á borð við Gagnaveituna." segir Sóley og telur hina kostina betri í stöðunni.

Hún bendir ennfremur á að einkavæðing sé þrepaskipt. Sóley segir að það megi vera að meirihluti borgarstjórnar, Besti flokkurinn og Samfylkingin, líti svo á að félagið verði áfram í meirihlutaeigu almennings, „en það er ansi grunnhyggið að halda að 51% eignarhlutur tryggi það til langs tíma. Einn góðan veðurdag kemst Sjálfstæðisflokkurinn til valda og mun þá þakka núverandi meirihluta fyrir að hafa unnið forvinnuna. " segir Sóley.

Málið verður næst tekið fyrir í borgarráði næstkomandi fimmtudag. Þá þurfa önnur sveitarfélög, sem eiga í Orkuveitunni, einnig að kynna máli fyrir sínum bæjarfulltrúum.


Tengdar fréttir

Orkuveitan vill selja helmingshlut í Gagnaveitunni

Eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu um að selja tæplega helmings hlut í Gagnaveitu Reykjavíkur. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Lífeyrissjóðir eru meðal þeirra sem sýnt hafa áhuga á því að kaup hlut í Gagnaveitunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×