Innlent

Forsætisráðherra vísar svikabrigslum til föðurhúsanna

BBI skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vísar því til föðurhúsanna að fyrirheit í stöðugleikasáttmálunum hafi verið svikin. Það var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem vakti máls á því á Alþingi í dag að Samtök Atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin teldu stjórnvöld ekki hafa staðið við sinn hlut stöðugleikasáttmálans.

„Stóryrði og svikabrigsl forsvarsmanna í atvinnulífinu eru orðin nokkuð hvimleið," svaraði Jóhanna og taldið að stjórvöld hefðu gert sitt til að standa við stöðugleikasáttmálann. „Og við hljótum að skoða vandlega aðkomu ríkisins að því að vera með stóran hlut í innlegg í kjarasamningum sem er svo eilíflega, með röngu, verið að brigsla okkur um að hafa ekki staðið við,“ sagði Jóhanna.

Illuga Gunnarssyni, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fleiri þingmönnum þóttu þessi ummæli mjög alvarleg og lagði til að boðað yrði til sérstakrar umræðu síðar í dag og Jóhönnu gefinn kostur á að draga þau til baka. Jóhanna sá ekki tilefni til þess.

Í ræðu sinni benti hún á að ytri aðstæður hefðu ekki beinlínis verið hagstæðar og valdið ákveðnum töfum. „Ætla menn í alvöru að halda fram að ríkisstjórnin beri ábyrgð á fjármálakreppunni sem hefur tafið ýmsar fjárfestingar?" spurði hún.

Bjarni sagði að á grundvelli stöðugleikasáttmálans ættu laun samkvæmt kjarasamningum að hækka eftir áramót. Hann sagði að forsendur kjarasamninganna hefðu verið að allt yrði gert til að tryggja 4-5% hagvöxt í landinu. Jóhanna sagði að margt skýrði að hagvöxtur hefði ekki náð 4-5% á landinu. Hann væri hins vegar næstum 3% sem er meira en tíðkast annars staðar í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×