Innlent

Fækkun starfa mikið áhyggjuefni

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson
Atvinnuleysi hér á landi hefur verið 1 ½ prósentustigi lægri en á sömu átta mánuðum í fyrra. Aðeins örfá lönd eru með minna atvinnuleysi en hér á landi. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í umræðum um atvinnumál á Alþingi í gær. Framkvæmdastjóri SA fagnar minna atvinnuleysi en segir að fækkun starfa sé mikið áhyggjuefni.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að atvinnuleysi hafi vissulega dregist saman á síðustu mánuðum. Þá líti út fyrir að atvinnuleysi fari undir sex prósent í ár. Hann hefur samt sem áður áhyggjur af því störfum fjölgi ekki.

„Við tökum eftir því nú að störfum hefur verið að fækka miðað við sömu mánuði í fyrra. Framan af ári sýndi rannsókn Hagstofu á gangi mála að störfum væri að fjölga en í júlí og ágúst hefur þeim aftur á móti fækkað."

Þá hefur Vilhjálmur verulegar áhyggjur af stöðu mála á vinnumarkaði, þá sérstaklega þegar litið er til framboðs á vinnuafli.

„Vinnuaflið, það er fjöldi þeirra sem að segjast vera á vinnumarkaði, hefur dregist saman. Hið saman er upp á teningnum þegar litið er til þeirra sem eru á vinnufærum aldri."

Þörf sé á fjárfestingu til að yfirstíga þetta vandamál.

„Við erum alltaf í sama farinu," segir Vilhjálmur. „Við erum ekki að fá nægar fjárfestingar. Við erum ekki að byggja upp nægilega mikið af nýjum störfum. Við þurfum fjárfestingar til að skapa eftirspurn. Við þurfum að skapa grundvöll fyrir lífskjörin í landinu til lengri tíma."

Vilhjálmur var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×