Innlent

Vilja vita laun stjórnarmanna slitastjórna

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kröfuhafar í gamla Glitni telja að þóknanir til skilanefndarmanna hafi hækkað mjög og óska því eftir sundurliðun. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar, segist ekki geta séð að sundurliðunin skipti nokkru máli.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna ætla fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur með það erindi að fá sundurliðun á þóknunum til skilanefndarmanna.

„Umbjóðendur mínir hafa bendingar um það að þóknanir til skilanefndarmanna og slitastjórna hafi hækkað verulega frá því sem var í upphafi starfa þeirra," segir Reimar Pétursson, lögmaður lífeyrissjóðanna.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, komst ekki í viðtal en í samtali við fréttastofu bendir hún á að hvorki slitastjórn Kaupþings né Landsbankans gefi upp sundurliðun yfir þóknun líkt og lífeyrissjóðirnir óska eftir að slitastjórn Glitnis geri. Þannig sé engin slitastjórnanna sem gefi upp hvað hver einstaklingur, sem fyrir þær starfar, fær í laun á hverjum tíma.

Steinunn segir alla kröfuhafa Glitnis hafa heildartölur yfir þóknun slitastjórnar. Hún segist ekki geta séð hvaða máli það skiptir fyrir lífeyrissjóðina að fá upplýsingarnar sundurliðaðar frekar.

„Út frá einni heildartölu er auðvitað mjög erfitt að átta sig á því hvað sé í raun verið að borga, fyrir hvað vinnu er verið að borga, fyrir hvaða tíma er verið að greiða, hversu margir fá þessar þóknanir og hvað sé nákvæmlega fellt undir hvaða lið í svona yfirlitum," segir Reimar.

Með störfum sínum fyrir slitastjórnin hefur Steinunn sjálf komist í hóp ríkustu íslendinga en samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins frá í sumar eiga hún og eiginmaðurinn um 340 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×