Innlent

Aldrei fleiri kvenleikstjórar á RIFF

Boði Logason skrifar
Þrjátíu og sjö prósent leikstjóra á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík eru konur. Hátíðin verður haldin í níunda sinn nú í ár. Stjórnandi hátíðarinnar segir úrvalið aldrei hafa verið meira.

Miðasala á hátíðina hófst í dag við hátíðlega athöfn á Kaffi Sólon í Bankastræti. Það var sjálfur poppkóngurinn Páll Óskar sem keypti fyrsta miðann á vefsíðu hátíðarinnar riff.is.

Áhersla hátíðarinnar er á glænýjarmyndir eftir unga leikstjóra víðsvegar úr heiminum. Þýskaland er í kastljósinu í ár og verða tvær þýskar myndir heimsfrumsýndar á hátíðinni.

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi hátíðarinnar, segir markmið hátíðarinnar sé að hafa gott úrval af kvikmyndum. Þá sé hátíðin góður stökkpallur fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn.

„Það er að koma gríðarlegur fjöldi fagfólks, bæði leikstjórar, framleiðendur og sölu- og dreifingaraðilar," segir Hrönn. „Við lítum á það sem tækifæri fyrir hinn íslenska kvikmyndabransa að komast í færi við það fólk auk þess að sjá það nýjasta og besta sem er að gerast í alþjóðlegri kvikmyndagerð í dag."

Aldrei hafa verið fleiri kvenleikstjórar á hátíðinni, eða 58 talsins og segir Hrönn að það sé góð og jákvæð þróun.

„Það hefur verið svolítið mikið um karlleikstjóra og þetta hefur verið ákveðin karlastétt. En núna er greinilega ýmislegt að gera og konur farnar að sækja í sig veðrið að leikstýra myndir. Eru margar íslenskar konur að leikstýra á hátíðinni í ár. Við erum með mjög stórt stuttmyndaprógramm, þar er mikill fjöldi ungra kvenna íslenskra, sem eru að stíga sín fyrstu spor, og við ætlum að sýna þeirra myndir á hátíðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×