Innlent

Ráðherra dregur upp kolranga mynd af stöðu lækna

Sú mynd sem ráðherra dregur upp af launum og stöðu lækna á Íslandi er kolröng. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi almennra lækna í kjölfar viðtals við Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra í Kastljósi þann 20. september síðastliðinn.

Þá kemur fram í tilkynningunni að almennir læknar séu um 15% starfandi lækna á Íslandi. Læknar hafi dregist aftur úr öðrum stéttum hvað varðar launaþróun og eru almennir læknar, með sex ára háskólanám, með 330 þúsund krónur í byrjunarlaun.

Það er sjálfsögð krafa að velferðarráðherra landsins kynni sér laun og starfsaðstæður lækna á Landspítala, sem og annarstaðar. Almennir læknar eru tilbúnir að senda ráðherra launaseðla sína, ef það gæti hjálpað til, segir jafnframt í tilkynningu.

Þá sagði Guðbjartur að laun sérfræðilækna á Landspítalanum væru á bilinu 1,8 - 2,2 milljónir króna. Hið rétta er að laun sérfræðilæknis með starfsreynslu eru rúmlega 600 þúsund krónur fyrir fullt starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×