Innlent

Elín Hirst stefnir á 3. sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Kraganum

Elín Hirst fjölmiðlafræðingur og sagnfræðingur og fyrrum fréttastjóri á RÚV og á Stöð 2 og Bylgjunnar haslar sér völl í stjórnmálum með því að gefa kost á sér á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í vor.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Elínu en ákveðið verður með fyrirkomulag við val á listann nk. mánudag.

,,Fréttamennska og fréttastjórastarfið er að mörgu leyti skylt þingmennsku, þ.e. að þjóna almenningi þó með ólíkum hætti sé. Ég hef allan minn starfsaldur tekið þetta hlutverk mjög alvarlega en á meðan ég var fréttamaður og fréttastjóri kom þátttaka í stjórnmálum að sjálfsögðu aldrei til greina", segir Elín Hirst í tilkynningunni. Elín var virk í stjórnmálum á háskólaárunum og var bæði í stjórn Vöku og Heimdallar.

„Ég mun gera betur grein fyrir mínum hugmyndum á næstum vikum. Þingmennskan heillar mig og vil hella mér í slaginn og slást í öflugan hóp sjálfstæðismanna, sem verður vonandi sem stærstur eftir kosningar," segir Elín.

"Ég legg mín verk óhikað á borðið og hef tileinkað mér það mottó að klára vel það sem ég tek að mér," segir Elín Hirst sem sækist eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í væntanlegu prófkjöri flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í apríl á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×