Innlent

Fannst í húsgarði 150 metrum frá heimili sínu

Maður á tíræðisaldri fannst eftir um tveggja og hálfs tíma leit á Húsavík í morgun en hans var saknað eftir að hann fór frá dvalarheimili aldraðra í bænum klukkan sex í morgun.

Eftir að hraðleit björgunarsveitarinnar Garðars í bænum skilaði engum árangri var ákveðið að kalla til meira lið frá Hjálparsveitum skáta í Aðaldal og Reykjadal.

Maðurinn fannst svo um klukkan hálf níu í húsgarði, um 150 metra frá heimilinu sínu. Samkvæmt upplýsingum frá slysavarnarfélaginu Landsbjörg var maðurinn á lífi en orðinn afar kaldur enda mátti ekki tæpara standa. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

Veðrið á Húsavík í morgun var fínt, bjart og stillt en ekki mjög hlýtt. Hitastig í nótt var rétt yfir frostmarki. Um 40 björgunarsveitarmenn voru við leit þegar maðurinn fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×