Innlent

Bjarni vill fella tillögur stjórnlagaráðs

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Anton Brink
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að taka þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá til að fella tillöguna.

Þetta kom fram á fundi Bjarna með sjálfstæðismönnum í Valhöll í morgun. Á fundinum fór Bjarni yfir víðan völl, meðal annars fyrirhugaða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 20. október næstkomandi um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

„Ég vil bara hafa sagt það hér að þegar það er hægt að kjósa þá mæti ég til að tjá mína skoðun. Og ég mun gera það þarna. Og ég mun mæta til að taka þátt í því að kjósa um þessar hugmyndir. Og ég mun segja nei við því að vinna stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Ég mun segja nei við því," sagði Bjarni.

Bjarni sagði að það væri ekki vegna þess að vinna stjórnlagaráðs væri alslæm.

„Vissulega er það svo að það er margt ágætt í vinnu stjórnlagaráðs. Það bara er svo fjarri því að heildarniðurstaðan geti verið grundvöllur að nýrri stjórnarskrá fyrir okkur Íslendinga. Það er fjarri því,“ sagði hann.

„Það er ótrúlegt og það er til skammar og ósóma fyrir stjórnarflokkana að neita stöðugt að taka málið til efnislegrar umræðu á þinginu. Það er ótrúlegt. Þannig stendur þjóðin nú frammi fyrir því að framkvæma á þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ekki þjóðaratkvæðagreiðsla því að niðurstaðan ræður ekki úrslitum um eitt eða neitt," sagði Bjarni Benediktsson í Valhöll í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×