Innlent

Er að einangrast en þráir að vera meðal jafningja

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Stefnan skóli án aðgreiningar hentar ekki öllum, segir faðir þroskaskerts drengs sem þarf að sækja skóla með krökkum sem glíma ekki verið sömu erfiðleika. Hann segir að syni sínum líði mjög illa í skólanum. Hann sé orðinn langt á eftir samnemendum í þroska og sé byrjaður að einangrast mjög alvarlega.

Ingi Kristmanns er ellefu ára. Ingi hefur verið greindur með þroskahömlun og er á eftir jafnöldrum sínum í þroska, bæði andlega og líkamlega. Hann finnur sig ekki í skólanum, er mikið einn og á ekki vini.

Ástæðan er sú að Inga er gert skylt að sækja grunnskóla með jafnöldrum sínum sem ekki glíma við sömu erfiðleika.

Þetta er vegna innleiðingar stefnunnar skóla án aðgreiningar. Ingi er ekki með nægilega mikla þroskahömlun til að geta sótt nám í Klettaskóla, áður Öskjuhlíðarskóla.

Klettaskóli er ætlaður börnum sem eru með alvarlegar og miðlungs þroskahamlanir ásamt þeim börnum sem eru með vægar þroskahamlanir og viðbótarfatlanir. Þroskahömlun Inga telst ekki nægileg til að hann fái inngöngu samkvæmt inntökuskilyrðum sem tóku gildi 2008. Hann er í raun utanveltu í kerfinu.

„Hann er byrjaður að draga sig miklu meira úr hópum og sækist ekki eftir að vera með. Hann er byrjaður að einangrast mjög mikið," segir Ágúst Kristmanns, faðir Inga.

Finnst ykkur þetta vera dæmi um að skóli án aðgreiningar hafi ekki heppnast sérstaklega vel í tilviki sonar ykkar? „Þetta heppnaðist fyrstu fjögur árin, á yngsta stigi grunnskólans. Svo jókst þroskamunurinn svo mikið. Strax í 5. bekk. Krakkarnir eru farnir að gera allt aðra hluti og hann nær ekki að fúnkera með þeim," segir María Björg Benediktsdóttir, móðir Inga.

Ágúst Kristmanns og María Björg Benediktsdóttir, foreldrar Inga.
Þau Ágúst og María Björg kærðu þá ákvörðun skólanefndar Klettaskóla að synja Inga um að sækja skólann í maí síðastliðnum með stjórnsýslukæru til menntamálaráðuneytisins, en ráðuneytið hefur ekki enn úrskurðað í málinu. Ráðuneytið hefur hins vegar sent þeim rökstuðning Skóla- og frístundaráðs og skólanefndar Klettaskóla fyrir synjun og þannig óbeint tekið undir rökstuðninginn.

Ingi sækir nám í Hörðuvallaskóla í Kópavogi og fær hann stuðning í tímum, rétt eins og stefnan skóli án aðgreiningar gerir ráð fyrir. Foreldrar hans segja hins vegar að upplifun hans sjálfs sé alltaf sú að hann sé utanveltu, en hann þráir ekkert meira en að vera hamingjusamur í skólanum.

„Krakkarnir sem eru með honum þar styðja hann mjög vel. Honum líður hins vegar illa vegna sinnar stöðu. Vegna þess að hann upplifir sig alltaf minnimáttar," segir Ágúst, en það er heitasta ósk foreldranna að sonur þeirra fái að upplifa sig sem jafningja með öðrum þroskahömluðum einstaklingum og stunda nám í Klettaskóla. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×