Innlent

"Við verðum að þrýsta á Íbúðalánasjóð"

Frá Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Frá Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Helgi Ragnar Guðmundsson, einn af fimm sakborningum sem sakaðir eru um að hafa svikið tugi milljóna út úr Íbúðalánasjóði árið 2009, var þögull sem gröfin í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Aðalmeðferð hófst í sakamálinu í dag. Fimmmenningunum er gefið að sök að hafa með fölsunum svikið um fimmtíu milljónir frá Íbúðalánasjóði. Verknaðurinn er talinn hafa verið inngöngupróf sem Vítisenglar lögðu fyrir nokkra meðlimi Fáfnis.

Helgi Ragnar kannast ekki við þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Í vitnisburði þeirra Vilhjálms Símonar Hjartarsonar og Jóns Ólafs Róbertssonar, meðsakborninga, kom fram að Helgi Ragnar hafi í raun stjórnað blekkingaleiknum.

Hann vildi ekki tjá sig um tengsl sín við sakborninga.

Þá kannaðist hann ekki við þau gögn sem lögregla lagði hald á í húsleit á heimili hans í Hafnarfirði. Á meðal gagna eru samþykktir um breytingar á prókúruhöfum og stjórn félaganna Saffran ehf. og Guðmund Kristinsson ehf. Með breytingum á stjórnum þessara félaga voru peningar dregnir út úr Íbúðalánasjóði.

Þá var Helgi Ragnar einnig spurður út í fjölda smáskilaboða sem hann fékk á sumarmánuðum 2009. Í einu skilaboðanna stóð: „við verðum að þrýsta á Íbúðalánasjóð."

Helgi Ragnar vildi hvorki tjá sig um skilaboðin né varpa ljósi á af hverju hann fékk þau sent.

Þinghald heldur áfram fram eftir degi. Stjórnarmenn Saffran ehf. hafa nú þegar lýst því yfir þeir kannist ekki við samþykktir um breytingar á stjórn félagsins.


Tengdar fréttir

"Ég á lítinn strák núna - ég hef snúið við blaðinu"

Vilhjálmur Símon Hjartarson var fyrstur sakborninga til að gefa vitnisburð í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Hann hefur játað sinn hlut í málinu. Vilhjálmur er einn af fimm sakborningum í málinu en það tengist fjársvikum mótorhjólasamtakanna Fáfni og Vítisenglum.

Vítisenglar í Héraðsdómi - fjárdráttur og fjársvik

Aðalmeðferð í máli fimm manna sem ákærðir eru fyrir stórfelld fjársvik hófst í Héraðsdómi Reykjaness nú í morgun. Fimmmeningunum er gefið að sök að hafa haft með blekkingum milljónir af Íbúðalánasjóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×