Innlent

Dæmdur í Litháen en náðaður á Íslandi

Erla Hlynsdóttir skrifar

Íslendingur sem dæmdur var í ellefu ára fangelsi í Litháen á síðasta ári, gengur nú laus. Hann var náðaður af íslenskum stjórnvöldum. Embætti forseta Íslands hefur náðað 45 dæmda einstaklinga frá árinu 1996.

Erlingur Örn Arnarson, sem er rúmlega fertugur, var dæmdur fyrir stórfellt fíkniefnabrot í fyrrasumar. Hann var handtekinn á heimili sínu í Vilnius eftir húsleit í ágúst árið 2010 þar sem fannst um eitt kíló af fíkniefnum, aðallega kannabisefnum, og svo lítilræði af kókaíni og amfetamíni.

Fyrir dómi í Vilnius játaði Erlingur brot sín greiðlega. Haft var eftir honum í þarlendum fjölmiðlum að hann væri háður fíkniefnum og að efnin væru til eigin nota. Eftir að dómur féll hóf hann afplánun úti. Erlingur áfrýjaði ekki dómnum. Ræðismaður Íslands í Litháen staðfestir að Erlingur hafi verið framseldur til Íslands, þar sem hann hélt áfram afplánun.

Erlingur sótti síðan um náðun og var hann náðaður fyrir stuttu. Fréttastofa hefur ekki náð að afla upplýsinga um ástæður náðunarinnar, en ein algengast ástæðan er vegna heilsufars.

Embætti forseta Íslands hefur náðað 45 dæmda einstaklinga síðan árið 1996, þegar Ólafur Ragnar Grímsson tók við. Fangar senda beiðnir um náðanir til nefndar á vegum innanríkisráðuneytisins, sem síðan skilar rökstuðningi sínum. Þá eru það forseti og innanríkisráðherra sem undirrita náðunarbréfið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.