Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - FC Zorkiy 0-0

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. Mynd/vilhelm
Stjarnan náði markalausu jafntefli gegn FC Zorkiy frá Rússlandi í fyrri leik liðanna í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu kvenna. Stjarnan var einum færri í tæpa klukkustund þar sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir nældi sér í tvö gul spjöld í fyrri hálfleik.

Rússneska liðið er mjög sterkt og var Stjarnan vel viðbúin því. Liðið varðist aftarlega, lék þéttan varnarleik og freistaði þess að sækja hratt þegar færi gáfust. Eitt slíkt gafst strax á þriðju mínútu þegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skaut í stöng.

Gunnhildur Yrsa fékk tvö gul spjöld fyrir grófar tæklingar á miðjunni. Gunnhildur er kappsamur leikmaður og náði ekki að hemja sig. Spennustigið mögulega of hátt enda Stjarnan að leika sinn fyrsta Evrópuleik.

Einum færri var við ramman reip að draga og rússneska liðið freistaði þess að skora fyrir hálfleik en Stjarnan náði að halda hreinu út fyrri hálfleik.

Zorkiy náði ekki að skapa sér nein teljandi færi fyrr en skammt var til leiksloka. Rússarnir fengu fjölda færa síðustu tíu mínútur leiksins en stangirnar á marki Stjörnunnar björguðu liðinu í tvígang auk þess sem framherjar Zorkiy skutu framhjá úr dauðafæri.

Stjarnan náði að halda út og markalaust jafntefli staðreynd. Seinni leikurinn eftir viku í Rússlandi verður erfiður en með jafna stöðu eftir leikinn í kvöld á Stjarnan möguleika á að komast áfram þar sem stórlið Lyon bíður handan við hornið.

Þorlákur: Eigum möguleika úti„Miðað við hvernig leikurinn þróaðist og að við misstum Gunnhildi útaf snemma var ég gríðarlega sáttur við hugarfar leikmanna og hvernig við leistum þennan leik taktískt séð,“ sagði Þorlákur Már Árnason þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Það var aðeins í enda beggja hálfleika að við lendum í smá vandræðum. Þær voru ekki að skapa mikið á síðasta þriðjung. Eins og sást þá eru þær tæknilega mjög góðar en við vorum búnar að tala um það í hálfleik að það væri ákveðnir leikmenn sem við þyrftum að stoppa og ákveðnir leikmenn sem við þurftum að gefa svigrúm til að eiga séns og við leystum það mál.

„Þær fengu að vera með boltann aftast. Við verðum að velja möguleika gegn svona sterku liði og það breytti ekki rosalega miklu taktískt séð að missa leikmann af velli.

„Þær voru óþolinmóðar og pirraðar og ekki vanar þessari mótspyrnu og bjuggust ekki við henni, það var greinilegt. Þess vegna eigum við möguleika úti, ef við verðum skynsamar.

„Ég get ekki kvartað undan þessu rauða spjaldi. Það voru atvik í leiknum, okkur fannst við eiga að fá víti en spennustigið hjá Gunnhildi var aðeins of hátt. Hún vill alltaf gera hlutina 100% og fór 100% í þessar tæklingar. Auðvitað var þetta hrikalega svekkjandi en yfir litlu að kvarta,“ sagði Þorlákur að lokum.

Vladimir: Stjarnan kom mér ekki á óvart„Það var erfitt að leika gegn góðu liði frá Íslandi. Stjarnan barðist vel og er með mjög gott lið,“ sagði Vladimir Vvedenski þjálfari Zorkiy.

„Styrkur Stjörnunnar kom mér ekki á óvart. Ég bjóst við að leikurinn myndi spilast svona. við fengum góð færi og áttum skilið að skora að minnsta kosti eitt mark en þetta er fótbolti og stundum spilast hann svona.

„Ég held að leikurinn úti verði mjög svipaður. Íslenska liðið mun verjast afturlega og beita skyndisóknum. Það verðum við að leysa. Við munum gera okkar besta til að finna lausnir á vörn Stjörnunnar og hvort það tekst verður að koma í ljós í seinni leiknum,“ sagði Vladimir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×