Innlent

Hinn slasaði gekk sjálfur út

MYND / GIG
Sjónarvottur sem Vísir ræddi við segir að hann hafi komið fljótlega að húsinu í Ofanleiti eftir að sprengingin varð í morgun. Sprengingin var svo öflug að hann taldi í fyrstu að flugvél hefði hrapað í íbúðarhverfið.

„Þetta var svo mikið högg, þetta gat ekki verið árekstur og ekki heldur jarðskjálfti," útskýrir maðurinn sem býr í nágrenninu. Hann segir í samtali við Vísi að þegar hann kom á vettvang hafi maður komið illa brunninn út úr húsinu. Maðurinn er illa brunninn og alvarlega slasaður. Enginn annar slasaðist í sprengingunni.

„Mér datt ekki í hug að nokkur maður gæti lifað þetta af," segir maðurinn en aðkoman var mjög ljót. Sprengingin var gríðarlega öflug og glerbrot á leikvelli fyrir framan húsið. Annar nágranni sem fréttastofa ræddi við og býr í sama húsi segir að maðurinn sinn og ungabarn hafi verið í húsinu þegar sprengingin varð. Þau forðuðu sér beint út.

Fréttastofa óskar eftir myndskeiðum ef fólk náði myndum af eldsvoðanum. Hægt er að hafa samband við fréttastofu í gegnum netfangið frettir@stod2.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×