Innlent

Hundrað ára hús verður hótel

BBI skrifar
Hverfisgata 21.
Hverfisgata 21.
Til stendur að breyta hinu hundrað ára gamla húsi Félags bókagerðarmanna við Hverfisgötu 21 í hótel. RR Hótel ehf. hefur fest kaup á húsinu og hefjast framkvæmdir 1. október. Húsið nýtur verndar samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur en Byggingafulltrúinn í Reykjavík hefur samþykkt umsókn um endurbæturnar.

„Þetta er krefjandi og skemmtilegt viðfangsefni en við höfum ágæta reynslu af því að gera upp eldri virðuleg hús þar sem leitast er við að halda í söguna og byggingalistina," segir Þórður B. Bogason, framkvæmdastjóri RR Hótels.

Frá konungsheimsókninni árið 1926.
Húsið við Hverfisgötu 21 var byggt árið 1912. Fyrstu fimmtán árin bjuggu Jón Magnússon, bæjarfógeti og síðar forsætisráðherra, og kona hans, Þóra Jónsdóttir, í húsinu. Þegar Kristján X Danakonungur heimsótti Ísland árið 1926 fékk hann gistingu í húsinu. Tvö herbergi í hótelinu tilvonandi verða einmitt tileinkuð minningunni um konungsheimsóknina.

Hið íslenska prentarafélag eignaðist húsið árið 1941, en félagið varð síðar eitt af stofnfélögum Félags bókagerðarmanna.

Á hótelinu verða útréttaðar 10 hótelíbúðir og sjá menn fram á þónokkrar endurbætur. Þó verður reynt að hafa sögu hússins í hávegum. Myndarlegt bókasafn verður til varðveislu á hótelinu og gamlar myndir munu prýða veggina. Minjasafn Reykjavíkur og Húsafriðunarnefnd hafa samþykkt framkvæmdirnar fyrir sitt leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×