Innlent

Telja umfang nýja Landspítalans óásættanlegt

BBI skrifar
Tölvuteikning af Nýja Landspítalanum.
Tölvuteikning af Nýja Landspítalanum.
Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar mótmæla deiliskipulagstillögu að Nýjum Landspítala við Hringbraut og telja hana óásættanlega í núverandi mynd. Nýi Landspítalinn verður að nokkurs konar borgvirki í útjaðri miðborgarinnar að mati samtakanna.

„Vandséð er hvernig slíkt borgvirki, sem er að stórum hluta sjálfu sér nógt um innri starfsemi, verður miðborginni til framdráttar," segir í tilkynningu frá íbúasamtökunum, en spítalinn á að rísa við Hringbrautina.

Íbúasamtökin viðurkenna að sameining spítalans á einn stað sé nauðsynleg en hefur efasemdir um að réttur staður hafi verið valinn vegna aukins umfangs spítalans. Samtökin minna á að þegar staðurinn var valinn var gert ráð fyrir talsvert minna byggingarmagni en nú er í vændum. Eftir að áætlunin stækkaði um meira en helming telja samtökin að forsendur hafi breyst svo mikið að staðarvalið sé ekki ásættanlegt.

Tölvuteikning af nýja Landspítalanum.
Íbúasamtökin telja tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að minnka umfang fyrirhugaðara bygginga á Landspítalalóðinni og laga mælikvarða framkvæmdanna að umhverfinu. Eða hins vegar að finna sjúkrahúsinu annan stað þar sem aðstæður í umhverfinu henta betur.

„Sú útfærsla sem valin er í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu er óásættanleg í núverandi mynd og getur ekki leitt til farsællar niðurstöðu," segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×