Innlent

Græðgin varð hrafninum að falli

BBI skrifar
Lambið og hrafninn hvíla saman í votri gröf.
Lambið og hrafninn hvíla saman í votri gröf. Mynd/Jóhann Sveinsson
Segja má að hrafninn á þessari mynd hafi orðið óbeint fórnarlamb fárviðrisins sem geisaði á Norðurlandi í síðustu viku. Það var leitarmaðurinn Jóhann Sveinsson sem gekk fram á þessa votu gröf á Holtavörðuheiði og smellti af henni mynd sem birtist á fréttavef Skessuhorns í dag.

Bændur sakna þúsundum kinda eftir óveðrið á Norðurlandi og óttast mikil afföll. Tófur og önnur rándýr hafa notið góðs af þessum hrakförum kinda sem standa hálfar uppúr sköflum eða liggja afvelta í snjónum. Rándýrin éta sig gjarna inn í dýrin áður en þau gefa endanlega upp öndina.

Líklega var eitthvað svipað uppi á teningnum í þessu tilviki. Hrafninn á myndinni hefur komið að lambinu liggjandi í laut fullri af vatni. Líklega hefur verið lífsmark með lambinu þegar hrafninn byrjaði að éta sig inn í vömbina á því. Hann hefur þannig verið of bráður á sér því lambið virðist hafa velt sér þegar hrafninn var kominn inn í vömbina á því með þeim afleiðingum að hann klemmdist á milli og beinlínis drukknaði í vömbinni á lambinu. Þannig getur græðgin orðið manni að falli.

Að sögn leitarmanna minnast þeir ekki svipaðs tilviks áður. Þegar leitarmenn komu að dýrunum voru ekki fleiri hrafnar í nágrenninu, enda vitað að þegar hrafn drepst af einhverjum ástæðum halda aðrir hrafnar sig fjarri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×